„Ekki góða tilfinningu fyrir þessu“

Fundurinn hófst kl. 11.
Fundurinn hófst kl. 11. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég myndi nú telja það að fljótlega í upphafi nýs árs ætti að verða ljóst hvort menn sjái til lands eða ekki,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, við mbl.is um viðræður SA, VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness sem hefjast hjá ríkissáttasemjara klukkan ellefu í dag.

„Við munum gera grein fyrir okkar kröfum og leggja þau gögn fram sem beðið hefur verið um og síðan verður farið yfir stöðuna í heild sinni. Ég lít á þennan fund sem svona gagnaöflunarfund fyrir ríkissáttasemjara áður en lengra verður haldið,“ útskýrir hann.

Vilhjálmur segir það vilji félaganna þriggja að vinnu ríkissáttasemjara verði hraðað til þess að það verði ljóst eins fljótt og hægt er hvort hægt sé að ná samningum. „Ég held að það þurfi ekki ýkja marga daga til þess að vita hvort svo sé ekki.“

Búa sig undir það versta

Á fundi sínum með ríkissáttasemjara munu verkalýðsfélögin meðal annars afhenda greinargerð um hvert mat þeirra sé á stöðu mála eins og staðan er nú, segir Vilhjálmur.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, funda með fulltrúum SA hjá ríkissáttasemjara í dag. Samsett mynd

Spurður um mat hans á stöðu mála svarar formaðurinn: „Ég skal fúslega viðurkenna það að ég sé bjartsýnismaður, en ég hef því miður ekki góða tilfinningu fyrir þessu. Ég held það sé mikilvægt að vona það besta en búa sig undir það versta.“

Vilhjálmur segir Samtök atvinnulífsins ekki hafa greint verkalýðsfélögunum frá því hvert mat þeirra er á svigrúmi til þess að mæta kröfum félaganna.

„Aðalkrafan okkar er að lágmarkslaun séu þannig upp sett að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Staðan er þannig í dag að það vantar um 114 þúsund krónur upp á til að svo sé, þannig að það er verk að vinna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert