Fengu óskýrar fyrstu upplýsingar

Banaslys við Núpsvötn.
Banaslys við Núpsvötn. Kort/mbl.is

Fyrstu viðbragðsaðilar sem komu á vettvang banaslyss við Núpsvötn í gær unnu stórkostlega vinnu þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Erfitt var að fá nákvæmar upplýsingar í fyrstu meðal annars vegna tungumálaörðugleika, segir Haukur Grönli sem var í aðgerðarstjórn á Selfossi í samtali við mbl.is.

Óskýrar fyrstu upplýsingar

Aðgerðarstjórn sér um að samhæfa björgunaraðila og veita þeim aðstoð og búnað eftir þörfum í hvert skipti. Haukur var á bakvakt í starfi sínu sem varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu í gær og fékk tilkynningu í símann um slysið.

„Þá sé ég að vegna alvarleika slyssins að það sé ástæða til þess að fara og setja í gang aðgerðarstjórnina því þetta var stórt slys. Á Klaustri er frábær mannskapur en þau eru náttúrulega ekki mörg svo þegar sjö aðilar lenda í slysi þá telst það bara mjög stórt slys,“ útskýrir Haukur.

Aðkoma Brunavarna Árnessýslu að slysinu var að koma að aðgerðarstjórn, útvega mannafla á slysstað sem og útvega klippibúnað sem hægt var að nota á vettvangi.

„Fyrsta þyrla landhelgisgæslunnar kemur við hérna á Selfossi og tekur einn lögreglumann, þrjá slökkviliðsmenn og tvær batterísklippur. Það er svona léttari búnaður því eftir að fyrstu upplýsingar bárust vorum við ekki alveg klárir hvar þetta var og það hljómaði eins og þetta gæti verið í einhverju gili,“ segir Haukur.

Tungumálaörðugleikar og sjokk 

Komið hefur fram að farþegi í bílnum sem fór af brúnni yfir Núpsvötn var með meðvitund og hringdi eftir aðstoð. Haukur segir að fyrstu aðilar á vettvang, lögreglumaður frá Klaustri og stuttu síðar hjúkrunarfræðingur, hafi unnið stórkostlega vinnu á vettvangi, sérstaklega hvað varðar upplýsingagjöf til aðgerðarstjórnar. Í fyrstu reyndist erfitt að fá nákvæmar upplýsingar.

„Það getur tekið tíma og það getur verið ótrúlega flókið ferli. Til dæmis vegna tungumálaörðugleika og svo gefur fólk í sjokki ekkert alltof góðar upplýsingar um staðsetningu,“ útskýrir Haukur.

Neyðarverði hjá Neyðarlínunni barst símtal frá farþega bíls sem tilkynnti …
Neyðarverði hjá Neyðarlínunni barst símtal frá farþega bíls sem tilkynnti slysið í gær. Erfitt var að fá nákvæmar upplýsingar en fyrstu björgunaraðilar á vettvang stóðu sig vel í upplýsingagjöf. mbl.is/Eggert

„Það var lögregla, einn maður, sem komst fyrst á vettvang og gerði stórkostlega vinnu. Svo fer hjúkrunarfræðingur frá heilbrigðisstofnunni á Klaustri og maður með henni. Næst kemur sjúkrabíll og svo slökkviliðið frá Klaustri. Þessir aðilar framkvæma alveg magnaða vinnu ásamt björgunarsveitinni,“ bætir hann við.

Ásamt því að veita aðgerðarstjórn upplýsingar um ástand á slysstað gátu fyrstu aðilar á vettvang veitt slösuðum fyrstu hjálp. Aðgerðarstjórn sendi mannskap á slysstað meðal annars frá höfuðborgarsvæðinu alveg þangað til öruggt var að nógu margir björgunaraðilar voru mættir á staðinn.

Náðu ekki öllum úr bílnum á slysstað

Oft þarf að taka erfiðar ákvarðanir í aðstæðum eins og mynduðust á slysstað í gær og þær geta verið mjög þungbærar. Ein slík var tekin í gær þegar ákveðið var að beita ekki klippum til að ná tveimur einstaklingum úr bílnum heldur fara með bílinn á Selfoss fyrst.

„Þetta var mjög erfitt. Það er tekin ákvörðun þegar það er vitað að tveir látnir einstaklingar eru í bílnum, og mjög erfitt að koma báðum út, þá er aðgerðum hætt á vettvangi. Bílnum er pakkað inn og honum komið á björgunarmiðstöðina á Selfossi,“ segir Haukur.

„Svo eru menn valdir til að fara í það að beita klippum til að ná þeim látnu út úr bílnum. Réttarmeinalæknir, lögreglan og allir rannsóknaraðilar eru þá viðstaddir,“ útskýrir hann og bætir því við að þetta sé líka gert til að koma í veg fyrir að fólk og ferðamenn sem eigi leið framhjá slysi sjái það sem ekki ætti að sjást. Þá sé einnig mikilvægt að vernda björgunarfólk sem starfar á slysstað.

„Það er ástæðan fyrir því að það voru ekki allir teknir út strax. Við erum farnir að gera þetta í flestum dauðaslysum, sem við fáum því miður of mikið af. Það er að við pökkum bílunum inn og förum með þá í björgunarmiðstöð á Selfossi,“ bætir Haukur við.

Neyðarteymi sálfræðinga frá Heilsuvernd var boðað út til að koma og ræða við björgunarfólk sem tók þátt í aðgerðunum við Núpsvötn í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert