Þætti betra ef nóg væri af búnaðinum

Brúin yfir Núpsvötn nú síðdegis.
Brúin yfir Núpsvötn nú síðdegis. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

Aðkoman að banaslysinu við Núpsvötn í gær var æði ljót og tók á þá sem að komu. Björgunarsveitarfólk frá Kirkjubæjarklaustri og nágrenni hittist í gærkvöldi og fór yfir daginn með sálfræðingi og sambærilegur fundur fór fram á Vík í Mýrdal. Akkúrat ár var í gær liðið frá því að margt af þessu sama fólki kom á vettvang alvarlegs rútuslyss í Eldhrauni, skammt frá Kirkjubæjarklaustri.

„Þetta var bara svona umræðufundur um hlutina, sem ég held bara að hafi gert öllum gott,“ segir Björn Helgi Snorrason björgunarsveitarmaður frá Kyndli á Kirkjubæjarklaustri í samtali við mbl.is, en hann var á meðal þeirra fyrstu á vettvang þessa hörmulega slyss.

„Ég tók bara minn bíl og fór beint austur úr. Ég er á næsta byggða bóli við þetta, ætli ég sé ekki bara sjö kílómetra sirka í burtu,“ segir Björn Helgi, en þegar hann kom á slysstað voru nágrannar hans, sem eru sjúkraflutningafólk, þegar komin á staðinn og byrjuð að veita þeim voru komin út úr bílnum fyrstu hjálp. Björn Helgi segir að þeir farþegar sem á annað borð voru á lífi, hafi verið með meðvitund á slysstað.

Björn segir að hann sé ekki, frekar en flestir björgunarsveitarmenn, með þjálfun í að koma að svona slysum. „En maður biður bara um fyrirmæli, hvað sé best að maður geri.“

Björn Helgi Snorrason björgunarsveitarmaður var á meðal þeirra fyrstu á …
Björn Helgi Snorrason björgunarsveitarmaður var á meðal þeirra fyrstu á slysstað í gær. Ljósmynd/Aðsend

Brýn þörf fyrir betri búnað

Hann segir að þetta slys, sem og rútuslysið alvarlega fyrir ári síðan, þar sem rúta með á fimmta tug ferðamanna fór út af veginum, einn lést og margir slösuðust alvarlega, sýni hve knýjandi þörfin sé fyrir það að björgunarsveitin og aðrir viðbragðsaðilar á svæðinu búi yfir besta mögulega búnaði. Björn Helgi segir að meðal annars fleiri vanti grjónadýnur fyrir björgunarsveitina, sveitin eigi einungis eina en mætti að ósekju eiga þrjár eða fjórar, þar sem um gríðarlega sniðugan búnað sé að ræða.

Auk þess segir Björn að bæta ætti við einum sjúkrabíl til viðbótar á Kirkjubæjarklaustri, en þar er einungis einn slíkur til taks sem þjónar stóru svæði. Þá er tækjabíll slökkviliðsins á Kirkjubæjarklaustri orðinn gamall, en hann er 1984 árgerð, að sögn Björns.

„Það þarf einhvern veginn að útvega fjármagn í að hérna sé meiri búnaður til staðar, það er bara þannig. Það eru gríðarlega margir sem fara hérna um og vegalengdirnar eru svo miklar. Það má eiginlega ekkert vanta. Það líður töluverður tími þangað til að þyrlurnar koma og þá þurfum við, þetta fáa fólk sem er hér í þessari viðbragðsstöðu að hafa aðgang að góðum búnaði,“ segir Björn Helgi.

Umferð hefur aukist gríðarlega um Suðurlandsveg á undanförnum árum og mörg slys hafa orðið. „Þetta var bara einn Land Cruiser-jeppi af öllum þessum aragrúa bíla sem fara hér um. Svona slys munu halda áfram að gerast jafnvel þó við bætum vegina. Vonandi verða þau sem fæst, en við getum ekki reiknað með öðru með allan þennan umferðarþunga en að það gerist eitthvað öðru hvoru,“ segir Björn Helgi.

Mögulega ísing á brúnni

Hann segir erfitt að átta sig á því hvernig þetta slys hafi getað borið að, en samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi virðist bifreið bresku ferðamannanna hafa snúist á brúnni með þeim afleiðingum að hún fór upp á vegrið brúarinnar hægra megin og hafi svo runnið eftir því nokkra vegalengd áður en bíllinn hrapaði niður á áraurana fyrir neðan brúna.

Töluverður tími getur liðið þar til þyrlur Landhelgisgæslunnar koma á …
Töluverður tími getur liðið þar til þyrlur Landhelgisgæslunnar koma á vettvang og því er þörf á því að þeir sem fyrstir mæta á slysstað séu búnir eins góðum búnaði og mögulegt er, segir Björn Helgi. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er svona dálítið skrítið hvernig þetta hefur borið að, maður skilur það ekki alveg í fljótu bragði,“ segir Björn Helgi, sem varð sjálfur ekki var við hálku á veginum er hann brunaði á slysstað. Þó útilokar hann ekki að mögulega hafi ísing verið á brúnni sjálfri, sem klædd er með stálplötum. Hitastigið hafi verið þannig að ísing gæti hafa myndast.

Brúin yfir Núpsvötn er komin til ára sinna og er hún lengsta einbreiða brúin í vegakerfinu, 420 metrar að lengd. Björn segir að ljóst sé að þessi brú sé ekki ásættanleg til lengri tíma.

„Þessi brú er vissulega svolítið hættuleg og það er búið að vera svolítið mikið um óhöpp á henni. Auðvitað höfum við öll áhyggjur af þessu og myndum vilja sjá framkvæmdir til bóta. Það ætti að draga verulega úr svona uppákomum, þó að það sé auðvitað erfitt að koma algjörlega í veg fyrir svona. Ég á ekki von á því að það sé hægt,“ segir Björn Helgi, sem segir að á þeim forsendum þurfi búnaður þeirra sem mæta fyrstir á vettvang á þessu svæði að vera í topplagi og fyrsta flokks.

„Vegalengdirnar eru svo gríðarlega langar hérna. Margt af því fólki sem er að bregðast við slysum sem þessu hér ekki með neina þjálfun í þessu, þó að það sé þrautþjálfað fólk inn á milli. Það væri því betra ef að það væri nóg af búnaðinum.“

Ljósmynd/Adolf Ingi Erlingsson
mbl.is