Skjálfti í Bárðarbungu upp á 4,8

Bárðarbunga í Vatnajökli. Öflugur skjálfti upp á 4,8 varð í …
Bárðarbunga í Vatnajökli. Öflugur skjálfti upp á 4,8 varð í öskjunni í nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Öflugur jarðskjálfti, sem mældist 4,8 að stærð, varð í Bárðarbungu í nótt. Skjálftinn varð í norðurrima öskjunnar klukkan 01:16 og fylgdu þrír nokkuð öflugir skjálftar í kjölfarið og var sá stærsti þeirra 3,7 að stærð klukkan 01:38. Allir urðu eftirskjálftarnir fyrsta klukkutímann á eftir þann stóra og nú dregið úr virkni á ný.

Stærsti skjálftinn sem varð í Bárðarbungu í síðustu viku var 3,6 að stærð.

Á vef Veðurstofunnar segir að engin merki séu þó um gosóróa á svæðinu, en stórir skjálftar hafa mælst reglulega í Bárðarbungu allt frá goslokum 2015.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is þetta vera þriðja stærsta skjálftann sem orðið hefur í Bárðarbungu frá goslokum. „Það var annar sem var tæplega 4,9 þann 14. júní og 30. janúar var líka skjálfti sem var 4,9 að stærð,“ segir hann.

„Það hefur verið skjálftavirkni frá goslokum og eldstöðin er að finna jafnvægi aftur eftir þetta mikla hraungos sem varð í Holuhrauni.“ Einar bendir á að eldstöðin hafi sigið mikið í því gosi og nú sé þrýstingur að bætast aftur á kerfið.

Erfitt sé að segja til varðandi framhaldið, en hann kveður Veðurstofuna munu fylgjast áfram grannt með framgangi mála. „Við höfum þó séð svona stóra skjálfta reglulega á þessu ári og svo sjáum við bara til á næstu mánuðum hvort að það komi ekki annar.“

950 skjálftar í síðustu viku

Tæplega 950 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í síðustu og voru það mun fleiri skjálftar en vikuna á undan þegar aðeins 260 jarðskjálftar mældust.

Flestir jarðskjálftarnir mældust í tveimur jarðskjálftahrinum. Hófst fyrri hrinan 18 desember, og varði til 20. desember í Herðubreið suðvestanverðri og taldi um 330 skjálfta. Síðari hrinan hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesi 19. desember og var hún kröftug fram til 21. desember, en er nú í rénun.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert