Stúlkan sem lést ekki orðin ársgömul

Fjórir voru fluttir með þyrlum á Landspítala eftir slysið í …
Fjórir voru fluttir með þyrlum á Landspítala eftir slysið í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Konurnar sem létust í umferðarslysinu við Núpsvötn í gær voru fæddar árin 1979 og 1981. Stúlkan sem einnig lét lífið í slysinu var fædd í janúar á þessu ári og hafði því ekki náð eins árs aldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Eins og fram hefur komið voru tvær fjölskyldur að ferðast saman er slysið átti sér stað, en eiginmenn kvennanna eru bræður. Öll eru þau breskir ríkisborgarar.

Vonast er til þess að hægt verði að ræða við bræðurna í dag til þess að hægt verði að varpa ljósi á það hver tildrög slyssins voru, en lögregla biður einnig alla þá sem mögulega hafa upplýsingar um slysið um að hafa samband í síma 444-2010, á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi eða í tölvupósti, á netfangið sudurland@logreglan.is.

Virðist hafa snúist á brúnni

Slysið til rannsóknar hjá lögreglu og rannsóknarnefnd samgönguslysa. Lögregla segir að fyrir liggi að bifreiðinni var ekið fram hjá myndavélum við Hvolsvöll snemma í gærmorgun. Bílnum var ekið til austurs eftir Suðurlandsvegi og virðist hann hafa snúist á brúnni með þeim afleiðingum að hann fór uppá vegrið brúarinnar, hægra megin, eftir því nokkra vegalengd og síðan útaf henni.

Þar fellur bíllinn niður á áraurana fyrir neðan brúna, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu.

Björgunaraðgerðir voru umfangsmiklar og komu viðbragðsaðilar meðal annars alla leið frá Höfn í austri og Selfossi í vestri og einnig með þyrlum Landhelgisgæslunnar úr Reykjavík. Fram kemur í tilkynningu lögreglu að skyggni til þyrluflugs hafi verið slæmt og að af þeim sökum hafi Landhelgisgæslan notað þriðju vélina til þess að leiðsegja þyrluflugmönnum á vettvang slyssins.

Lögregla tekur einnig fram í tilkynningu að viðbragðsaðilar, bæði þeir sem komu að austan og vestan, hafi tilkynnt um hálkubletti á leið á slysstað.

Lögregla þakkar öllum þeim sem að aðgerðunum við Núpsvötn komu fyrir þeirra vinnu, stóra sem smáa.  „Samvinna viðbragðsaðila stendur upp úr í þessu erfiða máli og ljóst að slagkrafturinn er mikill þegar allir leggjast á eitt,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert