Segir mikilvægast að vinna saman

Núpsvötn.
Núpsvötn. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

„Við komu var nokkuð ljóst að um umfangsmikið slys væri að ræða. Maður var sleginn til að byrja með, en fljótur að fara af stað með þá vinnu sem þurfti að hefja,“ segir Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur. Auðbjörg var með þeim fyrstu á vettvang þegar Toyota Land-Cruiser jeppi fór í gegnum vegrið á brúnni Súlu yfir Núpsvötnum í fyrradag með þeim afleiðingum að 3 létust og 4 slösuðust.

Auðbjörg var einnig fyrsti viðbragðsaðilinn á vettvang þegar rúta með erlendum ferðamönnum valt skammt frá Kirkjubæjarklaustri í lok síðasta árs. 44 ferðamenn voru um borð í rútunni og létust 2.

„Í fyrra var líka ljóst að um alvarlegt slys væri að ræða, margir slasaðir og mikil ringulreið. Það var strax í upphafi ljóst að umfang verkefnisins væri stórt og mikið og kannski yfirþyrmandi í byrjun.“

Frá vettvangi rútuslyssins sem varð í fyrra.
Frá vettvangi rútuslyssins sem varð í fyrra. Ljósmynd/Landsbjörg

Auðbjörg segir erfitt að segja til um það hvort að tildrög slyssins tengist á einhvern hátt ástandi brúarinnar.

„Þessi brú er þröng og hún er mjög löng. Maður reynir að fara gætilega inn á hana því maður gæti kannski búist við einhverri ísingu eða slíku. Hvort að erlendir ferðamenn eða þeir sem eru óvanir akstri hérna innanlands undirbúi sig nægilega vel fyrir að fara yfir svona brú veit ég ekki, hvort þeir þekki þetta hreinlega eða geri sér grein fyrir þessu.“

Gengur vel ef fólk vinnur saman 

Aðspurð segir Auðbjörg það vera ákjósanlegra ef fleira heilbrigðismenntað fólk gæti verið í viðbragðsstöðu á landsbyggðinni, en að dugnaður og reynsla björgunaraðila bæti upp fyrir mögulegan skort á fólki.  

„Við búum vel að góðum hópi af velviljugum sjálfboðaliðum sem eru hoknir af reynslu og eftir hvert atvik eða slys sem við vinnum saman að fara allir með mikilvæga reynslu með sér sem nýtist í næsta útkalli og í kjölfarið myndast einhverskonar seigla sem að hjálpar fólki að vinna saman og takast á við þessar aðstæður sem skapast annað slagið.

„Vissulega væri gott að efla menntun og við höfum reynt að gera það en í fámenni er það snúnara og kannski hægara sagt en gert.“

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu slasaða á bráðamóttökuna í Fossvogi í Reykjavík.
Þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu slasaða á bráðamóttökuna í Fossvogi í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Þá bendir Auðbjörg einnig á að viðbragð við alvarlegum umferðaslysum snýr að mörgum aðilum og að erfiðara sé að halda uppi ákveðinni þjónustu á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta snýr ekki einungis að heilbrigðisþjónustunni þegar svona slys verða heldur líka til dæmis slökkviliði, lögreglu og björgunarsveitum. Litlar sveitir eiga örugglega fullt í fangi með að reka slökkvilið. Á litlum stöðum eru til dæmis ekki burðir til að taka fastar vaktir, menn bara koma á hugsjóninni einni.

„Við reynum að vinna vel úr stöðunni og það hefur skilað sér. Sameiginlega, þegar allir leggjast á eitt, þá geta menn unnið vel og skilað sínu.“

Mikilvægt að nýta reynsluna

Aðspurð segir Auðbjörg viðbragðsaðila á svæðinu vinna vel úr þeim lærdómi sem draga megi af slysum eins og því sem varð í fyrradag svo að hámarka megi aðstoð og samvinnu þegar kallið kemur næst.

„Minni vinnu er nú lokið að sinni og við höldum bara áfram að undirbúa okkur og vinna úr þessu máli. Við höfum haft það að venju að halda rýnifundi, skoða hvað megi betur fara og hvað var gott. Þetta er allt með það að markmiði að styrkja sig fyrir næsta atburð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert