Enn ekkert hægt að staðfesta

Við Núpsvötn.
Við Núpsvötn. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vinnur enn að gagnaöflun og rannsókn á mögulegum tildrögum slyssins sem varð við Núpsvötn fyrir helgi þegar Toyota Land-Cruiser jeppi fór í gegnum vegrið á brúnni Súlu með þeim afleiðingum að þrír létust og fjórir slösuðust.

Sævar Helgi Lárusson, sérfræðingur hjá rannsóknarnefndinni, segir enn ekkert hægt að gefa upp um orsakir slyssins.

„Rannsóknin er bara í gangi. Nú er gagnaöflun, erum að safna því sem hægt er að safna saman. Svo verður unnið úr þeim gögnum og reynt að komast að einhverri niðurstöðu um tildrög, orsakir og hvort eitthvað sé hægt að gera til að auka öryggi.“

Í bílnum voru tveir bræður ásamt eiginkonum og börnum. Konurnar létust báðar ásamt 11 mánaða ungbarni. Sá bróðir sem ók bílnum er enn þungt haldinn en lögregla náði að taka af hinum skýrslu í gærmorgun. Þá eru hin börnin tvö, á aldrinum 7 til 9 ára, á batavegi.

Sævar segist enn ekkert geta sagt til um það hvort búið sé að bera saman þær upplýsingar sem annar mannanna veitti lögreglu í gær og þau gögn sem liggja núna fyrir hjá rannsóknarnefndinni. 

„Það er of snemmt að svara því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert