Mikilvægt að vinna saman

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Hari

Sjaldan hefur verið mikilvægara að sýna fram á, að hægt er að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, miðla málum og vinna samhent að sameiginlegum markmiðum, þvert á flokka, samfélaginu öllu til heilla.

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, í áramótagrein í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins.

Í greininni segir Katrín, að áskoranir framtíðarinnar muni kalla á að ólíkt fólk geti unnið saman „Tæknibyltingin sem stendur yfir mun kalla á breytingar á vinnumarkaði, aukna áherslu á rannsóknir og nýsköpun og fjölbreyttari stoðir undir efnahags- og atvinnulíf framtíðarinnar. Loftslagsbreytingar munu kalla á samstillta vinnu þar sem efnahagsstjórn þarf að styðja við grænar lausnir.

Íslendingar munu þurfa að setja sér framtíðarsýn um matvælaframleiðslu sem miðar að því að íslenskt samfélag geti orðið sjálfbærara en nú er um matvæli með það að markmiði að draga úr kolefnisspori matvælaframleiðslu, tryggja matvæla- og fæðuöryggi og efla lýðheilsu.

Ein helsta gagnrýni sem höfð hefur verið uppi á þá ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki snúist um verk hennar heldur að hún hafi yfirleitt verið mynduð og að ólíkir flokkar hafi náð saman um stjórn landsins. En mín reynsla er sú að það að vinna með þeim sem eru manni ósammála geri mann stærri. Stjórnmálamenn með sundrandi orðræðu sem miðar að því að skipa fólki í hópa og hengja á þá jákvæða og neikvæða merkmiða allt eftir því hvað þjónar þeirra hagsmunum eru stjórnmálamenn sem vilja byggja múra.

Markmið þeirra er gjarnan að sundra og grafa undan þeim lýðræðislegu gildum sem hafa tryggt stórstígar framfarir í mannréttindamálum, hagsæld og öryggi. Sjaldan hefur það því verið mikilvægara að sýna fram á að það er hægt að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, miðla málum og vinna samhent að sameiginlegum markmiðum, þvert á flokka, samfélaginu öllu til heilla. Þannig tryggjum við samfélag fyrir okkur öll."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »