Beðinn að sækja lyktandi tösku

Magdalena Gunnarsdóttir sálfræðingur og Guðjón Steinþórsson tónlistarkennari sem oft hefur …
Magdalena Gunnarsdóttir sálfræðingur og Guðjón Steinþórsson tónlistarkennari sem oft hefur verið kallaður Ozzy Osbourne Íslands enda telja margir hann hreinan tvífara myrkraprinsins svokallaða, söngvara hljómsveitarinnar Black Sabbath árin 1966 til 1978. Guðjón týndi fullri tösku af mat á flugvellinum fyrir jól og bíður hún hans nú rækilega lyktandi en enginn annar en hann hefur heimild til að sækja töskuna. Ljósmynd/mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Guðjón Steinþórsson, tónlistarkennari á Austfjörðum, lenti í allsérstöku máli er hann hélt til Stokkhólms fyrir jólin að heimsækja vinkonu sína, Magdalenu Gunnarsdóttur sálfræðing, sem búsett er rétt utan við sænsku höfuðborgina. Guðjón flaug utan 20. desember og hafði, svo sem Íslendinga er siður er vinir og ættingjar erlendis eru heimsóttir, fyllt ferðatösku af íslenskum matvælum, hangikjöti, lambakjöti, hamborgarhrygg, dýrindisfiskmeti og fleiru.

„Heyrðu, svo rétt skaust ég að kaupa mér bjór þarna í flugstöðinni, náði mér í þrjár kippur,“ segir tónlistarmaðurinn.

„Ég rétt lagði töskuna þarna frá mér á meðan og skaust að ná mér í ölið og svo þegar ég kem til baka er hún horfin og ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið,“ segir Guðjón. Og ekki batnaði það: „Ég lagði þá pokann með bjórnum frá mér í skelfingu minni og hleyp um í leit að töskunni sem mér datt helst í hug að einhver hefði tekið fyrir mistök. Svo þegar ég kem til baka er bjórinn horfinn líka,“ segir Guðjón og getur ekki annað en hlegið að þessum grátbroslega farsa í flugstöðinni.

Ekki vildi hann missa af fluginu til Stokkhólms svo honum var nauðugur einn kostur að skilja við matartöskuna góðu og halda, þungur á brún, um borð í flugvélina, matar- og bjórlaus sem eru hugsanlega verstu örlög Íslendings erlendis. Skömmu eftir að Guðjón kom til Stokkhólms barst hins vegar símtal frá starfsfólki flugstöðvarinnar sem sagði tösku merkta honum hafa fundist þar á bæ og hann skyldi ekki missa neinn svefn, taskan biði hans þegar hann sneri til Íslands á ný. Guðjón þakkaði fyrir og ákvað að njóta heimsóknarinnar í Svíaríki þrátt fyrir að farangurinn hefði farið forgörðum.

Hringdi í alla sem hann þekkti

„Svo hringja þeir í mig á Þorláksmessu og þá er nú aldeilis komið annað hljóð í strokkinn: „Sæll Guðjón, við verðum því miður að biðja þig að koma og sækja töskuna strax, hún er farin að gefa frá sér ansi mikla lykt,“,“ segir Guðjón þann sem hringdi hafa sagt og skyldi engan undra enda hluti farangursins fiskur sem var ferskur þremur dögum áður en líklega ekki eins ferskur eftir nokkra daga í geymslum flugstöðvarinnar.

„Ég fer beint í símann og hringi í alla sem ég þekki á Suðurnesjum til að athuga hvort einhver gæti sótt töskuna fyrir mig en kem alls staðar að lokuðum dyrum, allir voru uppteknir við eitthvað annað,“ segir Guðjón hlæjandi.

Lítið hefði þó stoðað þótt kunningjar Guðjóns á Suðurnesjum hefðu haft færi á að sækja hina ilmandi matartösku hans, þeir hefðu einfaldlega ekki mátt það. „Ég hringdi í mann fyrrverandi konunnar minnar sem vinnur í flugstöðinni en fékk svo einfaldlega skilaboð frá þeim á Messenger um að enginn annar en ég gæti sótt töskuna,“ segir Guðjón frá. „Það er vegna reglna sem tengjast fíkniefnasmygli og þannig löguðu. Þau sögðu við mig að hann mætti ekki sækja töskuna fyrir mig, í henni gæti leynst ólöglegur varningur og starfsfólk flugstöðvarinnar gæti ekki tekið þá áhættu að koma nálægt slíku,“ segir Guðjón.

Þannig að nú er svo komið að tónlistarkennarans austfirska bíður full ferðataska af dragúldnum jólamat þegar hann skilar sér á ný á Keflavíkurflugvöll á nýju ári. „Já já, svona er maður bara heppinn stundum,“ segir Guðjón og skellihlær að örlögum þess sem átti að verða jólamatur þeirra Magdalenu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert