Stórslysalaus nýársnótt

Nóttin var stórslysalaus um land allt.
Nóttin var stórslysalaus um land allt. Ljósmynd/Guðmundur Hermannsson

Nýársnótt var stórslysalaus um landið þótt að erilsamt hafi verið hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Aðallega var þó um að ræða minniháttar útköll vegna elds sem hafði komið upp í blaðagámum eða í stæðum af flugeldadóti sem staflað hafði verið upp. Nokkuð erilsamt var í sjúkraflutningum, þar af eitt mál vegna skotelds sem hafði skotist í brjóstkassa manns. Ekki var um alvarleg mál að ræða að sögn vakthafandi hjá slökkviliðinu.

Eins og fram kom í frétt mbl.is í nótt var eitt útkall vegna íkveikju í gömlu verslunarmiðstöðinni í Arnarbakka 2-4, en greiðlega gekk að slökkva þann eld. Samtals fór slökkviliðið í 23 verkefni á dælubíl og þá voru 50 sjúkraflutningar, sem er talsvert erilsamt miðað við aðra daga ársins.

Á bráðadeild Landspítala fengust þær upplýsingar að nóttin hafi verið nokkuð venjuleg. Engin stórslys komu upp og lítið um slys tengd skoteldum. Sagði vakthafandi sérfræðingur á bráðadeildinni að þar á bæ hefðu menn oft séð verri nætur.

Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni voru ekki útköll annarsstaðar á landinu vegna stærri slysa eða óhappa í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert