Búið að ræða við ökumanninn

Búið er að ræða við báða bræðurna sem komust lífs ...
Búið er að ræða við báða bræðurna sem komust lífs af. Kort/mbl.is

Nú fyrir skemmstu var tekin skýrsla af ökumanni Toyota Land Cruiser-jeppans sem fór í gegnum vegrið á brúnni Súlu yfir Núpsvötn milli jóla og nýárs með þeim afleiðingum að tvær konur og eitt ungt barn létust. Áður hafði skýrsla verið tekin af farþeganum sem er jafnframt bróðir ökumannsins.

„Það tókst ekki í fyrstu tilraun að tala við ökumanninn,“ sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, í samtali við mbl.is. Hann hafði varla lokið við setninguna þegar honum bárust þau tíðindi að það væri búið að ræða við ökumanninn og taka af honum skýrslu.

Oddur segir það ekki tímabært að segja til um hvernig framburður ökumannsins var eða hvað kom fram í honum. „Það er svo sem bara innlegg í rannsóknina.“

Ástand ökumannsins er talið vera stöðugt. Fregnir sem mbl.is bárust herma að ökumaðurinn sé ekki á gjörgæsludeild heldur sé kominn á legudeild heila-, tauga- og bæklunarskurðdeildar. Það hefur þó ekki fengist staðfest.

Eftir skýrslutöku yfir farþega jeppans og bróður ökumannsins sagði Oddur: „Það var tek­in skýrsla af farþeg­an­um í morg­un. Það er enn þá óljóst hvenær það verður hægt að taka af öku­mann­in­um skýrslu. Við get­um ekki gefið neitt upp um hans frá­sögn. Hann gaf okk­ur grein­argóðar upp­lýs­ing­ar þannig að við höf­um núna nokkuð góða mynd af at­b­urðarás­inni.“

Eiginkonur bræðranna létust báðar í slysinu sem og 11 mánaða gömul stúlka. Þá slösuðust tvö börn, 7 ára og 9 ára gömul.

mbl.is