Ekki einkamál Vegagerðarinnar

Brúin yfir Núpsvötn þar sem slysið varð er einbreið. Rætt …
Brúin yfir Núpsvötn þar sem slysið varð er einbreið. Rætt hefur verið um að lækka hámarkshraðann á henni. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

Það hafði verið til skoðunar að lækka hámarkshraða á einbreiðu brúnni yfir Núpsvötn áður en banaslys varð á henni í síðustu viku. Þetta segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. 

„Lagt hefur verið mat á ýmsa staði og þetta hefur verið einn af þeim. Þetta er svo sem ekki einkamál Vegagerðarinnar, þetta er samstarfsverkefni. Það var lækkaður hámarkshraði rétt fyrir utan Klaustur rétt fyrir jólin þar sem vegurinn er í miklu nábýli við gangandi fólk þannig að þetta er verkefni sem er aftur og aftur á borðinu,“ segir Bergþóra.

Síðastliðinn fimmtudag ók bifreið út af brúnni yfir Núpsvötn. Bílnum var ekið í gegn­um brú­ar­hand­riðið og út af brúnni sem er tölu­vert há með þeim afleiðingum að tvær konur létust og eitt ungbarn.

Eins og stendur er hámarkshraðinn á brúnni 50 kílómetrar á klukkustund vegna viðgerðar á brúarriðinu. Áður var hann 90 kílómetrar á klukkustund. Bergþóra segir ekki komið á hreint hvort og hversu mikið hámarkshraðinn á brúnni verði lækkaður. „Þetta hefur verið í úrvinnslu hjá okkar umferðaröryggishópi en ég er bara ekki með niðurstöðu um það.“

Einbreiðum brúm fækkað um tvær til þrjár á ári

Spurð hvort Vegagerðin finni fyrir miklum þrýstingi á að bæta öryggi á einbreiðum brúm eftir slysið segir Bergþóra: „Þetta slys er náttúrulega svo svakalega skelfilegt að ef það kveikir ekki á öllu þá bara veit ég ekki hvað þyrfti til. Einbreiðar brýr hafa verið forgangsmál í langan tíma og þeim hefur verið að fækka um tvær til þrjár á ári. Markmiðið hefur verið að fækka þeim en fjárveitingarnar sem við höfum haft hafa verið fyrir þessum tveimur til þremur á ári.“

Bergþóra Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Vegagerðarinnar. mbl.is/Hari

Útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi eitt

Bergþóra segir að einnig hafi verið ráðist í annars konar aðgerðir til þess að bæta öryggi í kringum brýrnar. „Það hefur verið gert töluvert átak í því á undanförnum árum að merkja þær betur.  Það eru komin ljós á þær, blikkandi ljós, og skilti sem sýna mjókkandi veg en við höfum ekki haft tök á að breyta þeim öllum.“

Á þjóðvegi eitt eru 37 einbreiðar brýr og Bergþóra segir að þeim verði fækkað í færri en 30 fyrir árið 2023. „Við einblínum sérstaklega á þær en líka á brýr utan hringvegar þar sem umferð er gríðarlega mikil,“ segir Bergþóra og bætir því við að það standi til að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi eitt á næstu 15 árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina