Skaupið kostaði um 34 milljónir

98% þeirra sem horfðu á sjónvarp þegar Áramótaskaupið var sýnt …
98% þeirra sem horfðu á sjónvarp þegar Áramótaskaupið var sýnt voru að horfa á RÚV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beinn kostnaður RÚV vegna Áramótaskaupsins 2018 var um það bil 34 milljónir króna. Það er svipað og undanfarin ár, samkvæmt upplýsingum frá dagskrárstjóra RÚV, Skarphéðni Guðmundssyni. Þegar leitað var að framleiðanda skaupsins kom fram að Ríkisútvarpið greiddi honum 30 milljónir króna til að standa straum af kostnaði við framleiðslu verksins.

Meira áhorf en síðustu ár

Fyrstu áhorfstölur benda til þess að áhorfið hafi verið meira en undanfarin ár. Samkvæmt bráðabirgðatölum var meðaláhorfið 73%, uppsafnað áhorf 75% og hlutdeild, hlutfall þeirra sem voru að horfa á sjónvarp á sama tíma og Áramótaskaupið var sýnt og með stillt á RÚV, 98%. Áhorfið er meira en tvö síðustu ár þegar fyrstu tölur sýndu um 70% meðaláhorf. Búast má við því að endanlegar áhorfstölur verði um 80%, þegar tekið hefur verið tillit til hliðraðs áhorfs sem er áhorf utan línulegrar dagskrár.

Að vanda voru landsmenn misánægðir með Áramótaskaupið en Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona og einn af handritshöfundum skaupsins, sagði í samtali við mbl.is að handritshöfundarnir hefðu reynt að gæta jafnvægis og sanngirni við gerð Skaupsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert