Andlát: Tryggvi Ólafsson

Tryggvi Ólafsson listmálari.
Tryggvi Ólafsson listmálari. Ljósmynd/Aðsend

Tryggvi Ólafsson listmálari lést í dag í faðmi fjölskyldunnar eftir erfið veikindi. Tryggvi fæddist í Neskaupstað 1. júní 1940. Hann lærði við Myndlista- og handíðaskólann árin 1960-61 og síðan við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn árin 1961-66. Tryggvi vann lengst af að list sinni í Danmörku þar sem hann bjó í rúma fjóra áratugi. Hann sýndi víða um heim og sneri sér snemma að popplist að því er segir í tilkynningu.

Tryggvi, sem var einn af þekktustu listamönnum þjóðarinnar, gat ekki málað lengur eftir að hann lenti í alvarlegu slysi 2007 og fluttist í kjölfarið til Íslands með eftirlifandi eiginkonu sinni Gerði Sigurðardóttur. Þau gengu í hjónaband í Kaupmannahöfn árið 1962 og áttu þrjú börn, þau Stíg, Gígju og Þránd. Þrátt fyrir slysið hélt Tryggvi áfram að vinna að list sinni og vann grafík fram á síðasta dag.

Tryggvi var riddari af Dannebrog, handhafi fálkaorðunnar og hlaut verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert