Rifist um mismunandi staðreyndir

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir réttilega að verkalýðsleiðtogar hafi …
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir réttilega að verkalýðsleiðtogar hafi haft rangt eftir honum en hefði þó sjálfur þurft að vera skýrari í máli sínu í Kryddsíldinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra bendir á það í færslu á Facebook í dag að það sé staðreynd að undir 1% fullvinnandi á vinnumarkaði séu með undir 300.000 krónur í heildarlaun, en á þetta benti hann einnig í Kryddsíldinni á Stöð 2 á gamlársdag, þó að orð hans þar hafi valdið misskilningi.

Bjarni segir Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, og fleiri innan verkalýðshreyfingarinnar vera að tala um „eitthvað allt annað“ í athugasemdum við málflutning hans.

Í þættinum á gamlársdag setti Bjarni fram eftirfarandi fullyrðingu: „Samkvæmt tölum Hagstofunnar er það 1% af vinnumarkaðinum sem starfar á 300.000 króna lágmarkstaxtanum.“

Þetta er rétt hjá fjármálaráðherra, ef litið er til talna Hagstofu Íslands um heildarlaun fullvinnandi á íslenskum vinnumarkaði, sem Bjarni segist hafa verið að vísa til. Bjarni hefði þó þurft að vera skýrari í framsetningu sinni á gamlársdag, þar sem af orðum hans í þættinum að dæma er það ekki ljóst að hann var að ræða um heildarlaun.

Hlutfall þeirra sem fá 300.000 krónur eða minna í heildarlaun fyrir fullt starf er meira að segja undir 1%, en tæp 4% til viðbótar voru með heildarlaun undir 350.000 krónum á mánuði á árinu 2017.

Minna en 1% fullvinnandi á íslenskum vinnumarkaði voru með 300.000 …
Minna en 1% fullvinnandi á íslenskum vinnumarkaði voru með 300.000 krónur eða minna í heildarlaun árið 2017. Graf/Hagstofa Íslands

Síðan Bjarni benti á þessa staðreynd hafa bæði Vilhjálmur Birgisson og Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ og ráðgjafi stéttarfélagsins Eflingar, gefið það út að fullyrðing Bjarna í þættinum hafi ekki staðist skoðun.

Það gerði Vilhjálmur í Facebook-færslu strax á gamlársdag. Þar sagði Vilhjálmur: „Mér fannst það frekar dapurt þegar fjármálaráðherra hélt því fram í Kryddsíldinni að 1% verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði tæki laun eftir lægstu launatöxtum,“ og sagði það hlutfall vera um 50%. Í gær birti hann svo graf Eflingar um dagvinnulaun verkafólks á Facebook-síðu sinni, máli sínu til stuðnings og hélt áfram að hnýta í fjármálaráðherra.

Í því grafi Eflingar, sem má glöggva sig á hér að neðan, sést að þetta er líka rétt hjá Vilhjálmi. 50% fullvinnandi verkafólks á íslenskum vinnumarkaði voru á dagvinnutaxta sem er 300.000 eða lægri árið 2017.

Árið 2017 voru um 50% verkafólks með dagvinnulaun sem náðu …
Árið 2017 voru um 50% verkafólks með dagvinnulaun sem náðu ekki 300.000 krónum, en það segir þó ekki alla söguna um stöðuna íslenskum vinnumarkaði í heild. Graf/Efling

Bæði Vilhjálmur og Bjarni hafa rétt fyrir sér, en þeir eru bara ekki að tala um sama hlutinn. Bjarni var ekki að tala um verkafólk, sem er einungis hluti þeirra sem eru á íslenskum vinnumarkaði og ekki um dagvinnutaxta, þó að það hafi ekki verið skýrt af orðum hans í þættinum.

Stefán Ólafsson skrifaði svo grein í Kjarnann í dag, þar sem hann benti á svipaða hluti og Vilhjálmur og sagði ummæli Bjarna í Kryddsíld villandi. Þar skrifar Stefán meðal annars: „Ef horft er yfir allan almenna vinnu­mark­að­inn voru 20% með 304 þús. kr. á mán­uði eða minna í grunn­laun og 379 þús. í reglu­leg laun sam­kvæmt nýj­ustu launa­könnun Hag­stof­unn­ar.“ Þetta er líka rétt hjá Stefáni, en hann er ekki frekar en Vilhjálmur að tala um sömu staðreynd og fjármálaráðherra var að vísa til.

Bjarni segir á Facebook í dag að Vilhjálmur Birgisson hafi haft rangt eftir honum og svo fellt dóm um þá vitleysu. „Það er rangt sem Vilhjálmur segir að ég hafi haldið því fram að 1% verkafólks tæki laun eftir lægstu launatöxtum,“ skrifar Bjarni, en Bjarni sjálfur talaði sem áður segir ekki skýrt um það í þættinum á gamlárdag að hann væri að vísa til talna um heildarlaun. Þó er ljóst að hann var ekki einungis að tala um verkafólk, heldur vinnumarkaðinn allan og því hefur Vilhjálmur rangt eftir honum að því leyti.

Þessi umræða öll er því byggð á því að fjármálaráðherra talaði ekki nægilega skýrt er að hann vísaði til þeirrar staðreyndar að undir 1% fullvinnandi á vinnumarkaði hefðu fengið undir 300.000 krónur í heildarlaun árið 2017.

„Í upphafi nýs árs er hægt að láta sig dreyma um að einn helsti grundvöllur heilbrigðra skoðanaskipta í landinu fái áfram að standa óhaggaður – að við látum vera að deila um staðreyndir  það er nóg annað til að takast á um,“ skrifar fjármálaráðherra á Facebook-síðu sína í dag, en ræðir þar þó hvergi um að ef til vill hefði hann sjálfur mátt vera skýrari í framsetningu sinni í Kryddsíldinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert