Leynd yfir plastbarkakostnaði

Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur staðfest með úrskurði sínum synjun Sjúkratrygginga Íslands …
Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur staðfest með úrskurði sínum synjun Sjúkratrygginga Íslands um að veita blaðamanni upplýsingar um kostnað sem féll á íslenska ríkið vegna málsins. mbl.is/Hjörtur

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) þurfa ekki að upplýsa hver heildarkostnaður stofnunarinnar var vegna meðhöndlunar sem Andemariam Beyene fékk á Landspítalanum í kjölfar tilraunaaðgerðar þar sem plastbarki var græddur í hann, samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem birtur var í síðasta mánuði á vef Stjórnarráðsins.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins óskaði 15. janúar eftir upplýsingum um heildarkostnað stofnunarinnar af aðgerðinni sem var framkvæmd árið 2011.

Beiðni hans var synjað á grundvelli laga um persónuvernd og þagnarskyldu af hálfu SÍ 17. janúar, en blaðamaðurinn ítrekaði beiðni sína 30. janúar með þeim rökum að hann óskaði ekki eftir því að vita neitt um læknismeðferðir Andemariam eða persónulegar upplýsingar um hann, heldur „kostnaðarupplýsingar á grundvelli fjárhagslegs samkomulags SÍ og Karolinska háskólasjúkrahússins, sem vörðuðu meðferð opinberra fjármuna.“

Benti blaðamaðurinn á að plastbarka-málið hefði verið til umfjöllunar hérlendis og erlendis vegna mistaka sem gerð voru. Þá sagði blaðamaðurinn upplýsingar um heildarkostnað við læknismeðferð  í málinu vera til þess fallnar að varpa ljósi á þann kostnað sem féll á íslenska ríkið vegna umræddra mistaka.

Takmarkað upplýsingagildi

SÍ ítrekaði fyrri afstöðu í febrúar og annan mars kærði blaðamaðurinn synjun SÍ til úrskurðarnefndar upplýsingamála.

„Sjónarmið sem mæltu með leynd vægju mun þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi,“ segir í úrskurðinum þar sem umbeðnar upplýsingar eru sagðar hafa „takmarkað upplýsingagildi“.

Jafnframt telur nefndin „ljóst að upplýsingar um heildarkostnað vegna læknismeðferðar tiltekins einstaklings teljist til upplýsinga um viðkvæm einkamálefni hans sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert