Sunna Elvira ekki á vitnalista

Sunna Elvira Þorkelsdóttir mun ekki gefa skýrslu við aðalmeðferð Skáksambandsmálsins.
Sunna Elvira Þorkelsdóttir mun ekki gefa skýrslu við aðalmeðferð Skáksambandsmálsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sunna Elvira Þorkelsdóttir verður ekki á vitnalista í hinu svokallaða Skáksambandsmáli, en Sigurður Kristinsson fyrrverandi eiginmaður hennar er einn þriggja sakborninga í málinu. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Anna Barbara Andradóttir saksóknari hjá ríkissaksóknara hefur staðfest þetta við bæði RÚV og Vísi í dag og segir að ekki hefði verið talin þörf á því að hafa Sunnu Elviru á vitnalista í málinu.

Aðalmeðferð málsins hefst á mánudag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þremur ákærðu er gefið að sök að hafa reynt að smygla fimm kílóum af amfetamíni til landsins, í sendingu sem var ætluð Skáksambandi Íslands.

Í frétt RÚV kemur fram að gert sé ráð fyrir því að aðalmeðferðin á mánudag verði stutt, þar sem ekki hafi tekist að boða spænska lögreglumenn fyrir dóminn í tæka tíð. Þeir munu koma síðar fyrir dóm.

mbl.is