Þjóðin klofin í afstöðu til veggjalda

Þeir sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokk og Viðreisn eru hlynntust …
Þeir sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokk og Viðreisn eru hlynntust bæði veggjöldum og auknum einkaframkvæmdum í samgöngum. mbl.is/Hari

40% Íslendinga eru hlynnt veggjöldum, ef þau flýta fyrir vegaframkvæmdum, en 40% segjast andvíg þeim, þó að þau flýti fyrir vegaframkvæmdum. 20% segjast hvorki hlynnt né andvíg. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu.

Einnig var spurt hvort fólk væri hlynnt eða andvígt auknum einkaframkvæmdum í samgöngumálum og niðurstaðan var sú að að tæp 30% sögðust hlynnt auknum einkaframkvæmdum en rúm 32% sögðust andvíg. Stærstur hluti, eða rösk 38%, sögðust hvorki hlynnt né andvíg.

Séu niðurstöðurnar greindar eftir ólíkum samfélagshópum kemur í ljós að karlar eru fremur hlynntir auknum einkaframkvæmdum í samgöngum (36,4%) en konur (21,7%). Þá er elsti aldurshópurinn hlynntastur bæði einkaframkvæmd og veggjöldum, flýti þau fyrir vegaframkvæmdum.

Hægrimenn hlynntastir

Mikill munur er á afstöðu til þessara málefna eftir því hvar fólk segist standa í stuðningi við stjórnmálaflokka. Tæp 60% þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokk ef kosið væri í dag eru hlynnt auknum einkaframkvæmdum í samgöngum og um helmingur þeirra sem myndu kjósa Viðreisn er sama sinnis, en einungis 9,3% þeirra sem segjast ætla að kjósa Flokk fólksins.

Er kemur að veggjöldum eru Sjálfstæðismenn (56,7%) og Viðreisnarfólk (57%) sömuleiðis hlynntust því að þau verði tekin upp, flýti þau fyrir vegaframkvæmdum. 44,7% þeirra sem myndu kjósa Vinstri græn eru sömuleiðis hlynnt veggjöldum, 42% þeirra sem myndu kjósa Framsókn og 39,7% Samfylkingarfólks. Minnstur er stuðningur við veggjöld hjá þeim sem myndu kjósa Flokk fólksins (16,8%) og hjá Pírötum, en tæp 25% þeirra sem myndu setja X við P væri kosið í dag segjast hlynnt veggjöldum og 60% þeirra lýsa sig andvíg.

Andstaða við einkaframkvæmdir er mest á Austurlandi, en 49,4% Austlendinga lýsa sig andvíga auknum einkaframkvæmdum í samgöngum, en einungis 17,6% segjast hlynnt. Þegar horft er til menntunar kemur í ljós að þeir sem eru með háskólapróf eru líklegri til þess að vera hlynntir einkaframkvæmd (33,2%) en þeir sem eru með grunnskólapróf (24%).

Einkaframkvæmd og veggjöld hafa verið töluvert til umræðu upp á síðkastið, bæði hjá samgöngunefnd Alþingis og í fjölmiðlum. Maskína spurði um þekkingu fólks á þessum tillögum, en í ljós kom að einungis 27,7% þjóðarinnar telja sig þó þekkja tillögur nefndarinnar um veggjöld vel, en 36,9% segjast illa þekkja til þessara tillagna.

Niðurstöður könnunarinnar eru aðgengilegar í heild á vef Maskínu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert