Vill stjórnsýsluúttekt á Íslandspósti

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, vill að Ríkisendurskoðun verði falið …
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, vill að Ríkisendurskoðun verði falið að gera stjórnsýsluúttekt á Íslandspósti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hyggst leggja fram skýrslubeiðni til Ríkisendurskoðunar, þegar þing kemur saman, um stjórnsýsluúttekt á Íslandspósti. Jón Þór segir aðspurður í samtali við mbl.is að ekki sé um að ræða þingsályktunartillögu þess efnis að ráðherra verði falið að óska eftir slíkri úttekt heldur að löggjafarvaldið geri það beint.

„Þingið hefur náttúrulega eftirlitshlutverk þegar kemur að ríkisfyrirtækjunum og getur þá beðið Ríkisendurskoðun, sem er eftirlitsstofnun Alþingis, um að gera úttekt á því hvernig farið er með það fé sem þingið útdeilir og hvort þeim markmiðum er náð sem stefnt er að með lögum, hvort farið hafi verið eftir þeim og koma með tillögur að úrbótum.“

Tilefnið er ekki síst ósk Íslandspósts eftir fyrirgreiðslu úr ríkissjóði upp á 1,5 milljarða króna til þess að hægt verði að halda rekstri fyrirtækisins áfram. Jón Þór segir að slík úttekt væri mjög æskileg til þess að tryggja að allt væri uppi á borðunum hvað varðar rekstur Íslandspósts þannig að hægt væri að taka upplýstar ákvarðanir um framhaldið.

„Mér sýnist einfaldlega kominn tími til þess að Ríkisendurskoðun geri úttekt á Íslandspósti í ljósi þess að fyrirtækið var að biðja um 1,5 milljarða aukalega af skattfé þannig að við getum farið að læra af þeim mistökum sem klárlega hafa verið gerð í rekstri, þess hvort sem þau hafa verið réttlætanleg eða ekki,“ segir Jón Þór enn fremur um málið.

Þingmaðurinn segir sömuleiðis aðspurður að slík úttekt væri klárlega jákvæð fyrir Íslandspóst í ljósi þeirrar neikvæðu umfjöllunar sem verið hafi í gangi undanfarnar vikur og mánuði um rekstur fyrirtækisins. Þar með fengist vönduð og áreiðanleg úttekt á rekstrinum. „Þá fáum við þetta bara á hreint og sjáum hvað betur má fara.“

mbl.is