Engar bætur vegna slyss í Viðeyjarferju

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Tryggingafélag hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar var 2. janúar sl. sýknað af bótakröfu konu sem slasaðist um borð í Viðeyjarferju fyrirtækisins, en konan var farþegi í ferjunni vegna skemmtiferðar fjölmiðlafyrirtækisins 365. 

Slysið varð þegar slinkur kom skyndilega á ferjuna rétt áður en hún lagðist að bryggju í Reykjavíkurhöfn, missti konan fótanna og féll fram af efra þilfari við stigaop og niður á neðra þilfarið. Reyndist fallhæðin ríflega tveir metrar. 

Viðeyjarferjan í forgrunni. Myndin tengist fréttinni ekki.
Viðeyjarferjan í forgrunni. Myndin tengist fréttinni ekki.

Fram kom í máli konunnar fyrir dómi að nokkur ölvun hefði verið meðal farþega, en sjálf hefði hún ekki neytt mikils áfengis. Taldi hún að slinkinn mætti rekja til þess að skipstjóri ferjunnar hefði hemlað snögglega með þeim afleiðingum að stefnandi féll milli þilfaranna. Í ljós kom að konan varð fyrir nokkrum áverkum við fallið og reyndist m.a. rifbeinsbrotin. Var henni vegna áverkanna metin 5% örorka og varanlegur miski metinn átta stig.

Skipstjórinn sýndi ekki af sér gáleysi

Forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækisins bentu á að slinkurinn hefði ekki verið meiri en svo að aðrir farþegar hafi ekki slasast við hann, en töldu þar að auki að slysið væri ekki að rekja til slinksins. Konan hefði farið niður stiga milli þilfaranna með því að snúa fram, en ekki aftur, þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli áhafnarinnar. 

Héraðsdómur taldi ósannað hvað olli því að umræddur hnykkur hafi komið á ferjuna. Taldi dómurinn að með hliðsjón af öllu fyrirliggjandi þyrfti að hafa í huga að konan hefði verið stödd um borð í ferju sem var á siglingu og um það bil að leggjast að bryggju. Hreyfingu á ferjunni við þær aðstæður yrði að telja eðlilega og því yrði ekki ráðið að slinkurinn hafi komið til vegna gáleysis skipstjóra við stjórn ferjunnar. Siglingarlagið hafi ekki haft áhrif á aðra farþega um borð.

Var tryggingafélagið því sýknað af kröfu konunnar, en rétt þótti að málskostnaður milli aðila félli niður í ljósi þess hvernig málið væri vaxið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert