Vilja að þjóðir heims vakni

Þau Fayik Yagizay, Leyla Imret og Faysal Sariyildiz flytja erindi …
Þau Fayik Yagizay, Leyla Imret og Faysal Sariyildiz flytja erindi um ástand Kúrda í Tyrklandi í dag. mbl.is/RAX

„Markmið tyrkneskra stjórnvalda er að sá ótta og reyna að leysa upp samfélag Kúrda og fæla þá frá borgum sínum,“ segir Leyla Imret, en hún var kjörin borgarstjóri í Cizre árið 2014 fyrir hönd kúrdíska HDP-flokksins.

Henni var vikið úr embætti í september 2015, þegar tyrkneskar öryggissveitir hófu umsátur um borgina, sem endaði með því að þeir skutu með stórskotaliði á íbúðahverfi Cizre sem olli miklu mannfalli meðal óbreyttra borgara. Í kjölfarið flúði hún til Þýskalands árið 2017, en hún hafði í millitíðinni verið handtekin þrisvar sinnum.

Leyla mun flytja erindi í dag kl. 12 í Safnahúsinu ásamt Faysal Sariyildiz, en hann er fyrrverandi blaðamaður og þingmaður fyrir kúrdíska HDP-flokkinn. Þegar aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum hófust undir lok árs 2015 var Faysal sviptur þinghelgi sinni og sá hann þann kost vænstan að flýja Tyrkland, en varð í millitíðinni vitni að aðgerðum tyrkneska herliðsins í Cizre. Fayik Yagizay, fulltrúi HDP-flokksins við Evrópuráðið og aðrar evrópskar stofnanir í Strassborg, mun einnig ræða ástandið í Kúrdahéruðum Tyrklands.

Leyla bendir á að á árunum 2013-2015 hafi verið í gangi friðarferli á milli Kúrda, sem höfðu þá lengi barist fyrir aukinni sjálfsstjórn, og tyrkneskra stjórnvalda, en að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafi leyst það upp fyrir pólitískan stundarávinning. Ástandið nú hafi í raun færst til baka um 20 ár frá því sem áður var, og sakar hún Erdogan og Tyrki um hræðilegar aðfarir gegn Kúrdum. „Þetta eru hræðilegar árásir gegn óbreyttum borgurum, sem ekki hafa sést áður í sögu tyrkneska lýðveldisins,“ segir hún, en bætir við að hún telji að þessi harða stefna Erdogans muni á endanum leiða til falls hans. „Það er ómögulegt að halda þessari stefnu áfram til lengdar, hún er ekki sjálfbær. Óttinn við að tapa völdum ræður öllu hjá honum, en hann mun tapa á endanum.“

Sjá samtal við Fayik Yagizay, Leyla Imret og Faysal Sariyildiz um ástand Kúrda í Tyrklandi í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert