Vilja endurheimta Hítarána

Skriðan úr Fagraskógarfjalli stíflaði farveg Hítarár.
Skriðan úr Fagraskógarfjalli stíflaði farveg Hítarár. Ljósmynd/Sumarliði Ásgeirsson

Veiðifélag Hítarár stefnir að því að láta grafa í gegnum skriðu sem féll í Hítardal sl. sumar og endurheimta með því Hítará í sínum fyrri farvegi. Stjórn félagsins hefur óskað eftir leyfi Borgarbyggðar sem er landeigandi á svæðinu til að fá að grafa.

Framhlaupið sem kom úr Fagraskógarfjalli í byrjun júlí stíflaði farveg Hítarár. Áin fann sér farveg meðfram skriðunni en margir veiðistaðir og uppeldissvæði fyrir lax þornuðu upp eða urðu ólaxgeng. Guðjón Gíslason, bóndi í Lækjarbug og stjórnarmaður í Veiðifélagi Hítarár, segir að búast megi við því að minnkandi laxgengd og styttra veiðisvæði komi niður á tekjum af ánni í framtíðinni.

Verkfræðistofa sem Veiðifélagið leitaði til taldi að það myndi kosta um 300 milljónir að laga nýja farveginn svo hann yrði laxgengur. Það myndi hins vegar kosta 264 milljónir að grafa í gegnum skriðuna 1,5 km leið, eftir fyrri farvegi. Þar sem skriðan er þykkust er hún um 10 metrar. Við þetta verk þarf að moka til um 300 þúsund rúmmetrum af jarðvegi. Guðjón vonast til þess að hægt verði að vinna þetta fyrir lægra verð. Hann segir æskilegt að hefjast fljótt handa svo áin geti skolað sig fyrir vorið. Annars þurfi að bíða í ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert