Var feginn að losna við skuldina

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Fram kom fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í Skáksambandsmálinu svonefndu í máli Jóhanns Axels Viðarssonar, eins þriggja sakborninga í málinu, að hann hafi ekki vitað hvað hafi verið í sendingu frá Spáni sem hann var beðinn að sækja og koma á ákveðinn stað.

Hákon Örn Bergmann, einn þremenninganna, bað Jóhann um að sækja sendinguna og hét honum í staðinn að fella niður gamla skuld upp á 300 þúsund krónur. Hákon sagði fyrir dómi að Sigurður Kristinsson, þriðji sakborningurinn, hafi beðið hann að sjá um málið.

Hákon sagði fyrir dómi að hann hefði ekki vitað hvað væri í sendingunni en tvær grímur hafi verið farnar að renna á hann og því viljað fjarlægja sig frá því. Því hafi hann fengið Jóhann til verksins en einnig vegna þess að Sigurður hafi talið betra að annar sækti sendinguna.

Einn sakborninga á leið í dómsal í morgun.
Einn sakborninga á leið í dómsal í morgun. mbl.is/Eggert

Jóhann sagði Hákon hafa haft samband við hann og spurt hvort hann vildi losna við skuldina. Hann hafi grunað að málið snerist hugsanlega um stera eða eitthvað fyrst Hákon væri tilbúinn að fella niður svo háa skuld. Hann hafi farið og sótt sendinguna samkvæmt leiðbeiningum frá Hákoni og átt að skilja hana eftir á ákveðnum stað í Mosfellsbæ og setja ruslapoka yfir hana ef það skyldi rigna. Hann hafi síðan verið umkringdur lögreglumönnum sem handtóku hann.

Jóhann sagðist aðspurður ekkert annars hafa spáð í hvað væri í sendingunni. Hann hafi einfaldlega verið ánægður með að losna við skuldina. Spurður hvort hann þekkti Sigurð sagðist hann ekki þekkja hann persónulega en Sigurður þekkti systur hans.

Sigurður Kristinsson sést hér ásamt lögmönnum í dómsal.
Sigurður Kristinsson sést hér ásamt lögmönnum í dómsal. mbl.is/Eggert

Spurður af verjanda sínum Sveini Andra Sveinssyni lögmanni hverjir persónulegir hagir hans væru í dag sagðist Jóhann hafa eftir þetta farið í meðferð og hafa verið edrú frá því í apríl á síðasta ári. Hann væri á sjó og hefði unnið að því að snúa lífi sínu við.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram 25. janúar.

mbl.is