Vera Dags sé þegar farin að trufla málið

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, hafnar því að vera með pólitískan …
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, hafnar því að vera með pólitískan leikþátt. mbl.is/Eggert

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir veru Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í þverpólitísku teymi, sem falið var að móta tillögur að viðbrögðum við þeim ábendingum sem fram komu í skýrslu innri endurskoðunar um braggann að Nauthólsvegi 100, vera farna að trufla málið.

Hún hafnar því alfarið í samtali við blaðamann mbl.is að ákvörðun hennar um að víkja úr hópnum ef Dagur taki þar einnig sæti sé nokkurs konar pólitískt leikrit, eins og Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Pírata, sagði um helgina.

„Þetta er nú ekki í fyrsta og ekki í annað eða þriðja sinn, heldur hefur þetta nú gerst margítrekað á þessu kjörtímabili, að í hvert skipti þegar við í minnihlutanum komum með einhverja gagnrýni og meirihlutinn virðist vera rökþrota, erum við sökuð um pólítiska spilamennsku eða pólitískt leikrit,“ segir Hildur og bætir því við að þetta sé auðvitað ekki neitt slíkt.

„Við gagnrýndum það strax í upphafi þegar til þessarar nefndar var stofnað að borgarstjóri sæti í henni. Við ákváðum hins vegar að taka sjálf sæti í henni og ég, til þess að reyna að gera gagn og til að koma í veg fyrir að annað eins mál gæti endurtekið sig. Okkur fannst líka ótækt að meirihlutinn einn myndi einhvern veginn vinna úr þessu máli og við gagnrýndum strax [á borgarráðsfundi 20. des.] að borgarstjóri sæti þar, ég sá að Dóra var nú eitthvað að draga úr því, en hún var ekki einu sinni á fundinum svo það er nú dálítið sérkennilegt,“ segir Hildur.

Farið að trufla málið þótt vinnan sé ekki hafin

Hildur segist ekki hafa fengið neitt fundarboð á fyrsta fund hópsins og segir að hún muni ýta á eftir því berist það ekki fljótlega. Hún telur líklegt að fundarboðið hafi ekki enn komið „út af allri umræðunni um blessaðan hópinn“ og veru borgarstjóra í honum.

„Núna er vera Dags í þessum hópi orðin aðalumræðuefnið og þetta er svolítið farið að trufla málið. Við eigum öll að vera sammála um það að reyna að ná einhverri góðri niðurstöðu úr þessu máli, vinna vel úr þessari skýrslu og tryggja það að við lögum þarna stjórnsýsluna og allt eftirlit svo að mál sem þetta geti ekki endurtekið sig,“ segir Hildur, sem telur að forsendur fyrir vinnu sem miði að trúverðugri niðurstöðu séu brotnar, gangi Dagur ekki að hennar kröfu.

En hvernig sér hún fyrir sér að þessi hópur gæti verið skipaður, ef að borgarstjóri tekur þá ákvörðun að víkja sæti, eins og Hildur vill að hann geri?

„Mér þætti skynsamlegast og eðlilegast að það kæmi inn einhver hlutlaus aðili, það gæti verið einhver frá innri endurskoðun sem kom að gerð skýrslunnar eða jafnvel einhver stjórnsýslufræðingur sem gæti komið með gott innlegg í einhverjar stjórnkerfisbreytingar. Það gæti þá verið einn frá meirihluta og einn frá minnihluta og einhver hlutlaus aðili,“ segir Hildur og bætir við að vilji meirihlutinn „vinna vel úr þessu máli“ eigi ekki að skipta máli hvort það sé pólitískur meirihluti í hópnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina