Aldrei um skilgreindan hóp að ræða

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. mbl.is/Árni Sæberg

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi Viðreisnar, segir ákvörðun Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að segja sig úr þriggja manna hópi sem á að rýna í niðurstöður innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið, ekki hafa áhrif á þá vinnu sem fram undan er þar sem aldrei hafi verið um skilgreindan hóp eða nefnd að ræða.

Í fundargerð borgarráðs frá 20. desember þar sem skýrsla um framkvæmdir við Nauthólsveg 100 var til umfjöllunar kemur fram að borgarráð fól borgarstjóra, formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarráðsfulltrúa að móta tillögur að viðbrögðum við skýrslu innri endurskoðunar.

„Starfshópur og stýrihópur, það er ákveðin forskrift að þeim, og nefnd líka. Þetta var aldrei neitt af því. Það var ekki verið að forma neina nefnd eða stýrihóp,“ segir Þórdís Lóa í samtali við mbl.is. Ákveðin vinna fór samt sem áður af stað að loknum fundi borgarráðs. „Við byrjuðum vinnuna strax og sú vinna átti sér stað milli jóla og nýárs. Þá var verið að draga út úr skýrslunni það sem við teljum vera tækifæri til úrbóta, af því að í skýrslunni eru í raun engar beinar ábendingar,“ segir Þórdís Lóa.

Úrsögn Hildar breytir ekki verkefninu

Hildur krafðist þess að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri viki úr hópnum og sagðist hún sjálf ætla að gefa sæti sitt laust verði ekki fall­ist á þessa kröfu. Dagur sagði í gær að hann ætli ekki að verða við kröfu Hildar og því hefur hún sagt sig úr hópnum.

„Núna hefur Hildur Björnsdóttir dregið sig út úr þessari vinnu og það er leiðinlegt. En það breytir ekki verkefninu, það er fyrir framan okkur og við munum halda því áfram. Við erum í mikilli umbótavinnu,“ segir Þórdís Lóa.  

Kynna frumdrög að úrbótum á fimmtudag

Borgarstjóri fullyrti í kvöldfréttum RÚV í gær að braggamálinu væri lokið. Þórdís Lóa tekur undir það að hluta. „Braggamálinu er lokið að því leytinu til að búið er að gera úttekt á því. Því er ekki lokið að því leytinu til að við erum núna í umbótafasanum og ætlum að halda þeirri vinnu áfram, tengja hana við miðlæga stjórnsýslu og fara í mörg umbótaverkefni sem snúa að betri stjórnsýslu, betri meðferð fjármuna og agaðri umsjón fjármuna.“

Braggamálið verður til umfjöllunar á borgarráðsfundi á fimmtudag og í borgarstjórn í næstu viku. „Algjör frumdrög að því sem við viljum draga út úr skýrslunni verða lögð fyrir borgarráð á fimmtudag. Þetta eru bara fyrstu skrefin. Núna erum við að átta okkur á því hvað við ætlum að draga út úr þessari skýrslu og svo eigum við eftir að leggjast yfir hvaða tillögur að úrbótum verða lagðar fram og í hvaða samhengi það verður sett við miðlæga stjórnsýslu, umboð og fjármál og fleira,“ segir Þórdís Lóa.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert