Gengur ekki svona mikið lengur

Alma D. Möller landlæknir.
Alma D. Möller landlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ég er algjörlega viss um að það verði brugðist við,“ segir Alma D. Möller landlæknir í samtali við mbl.is. Fram kemur í úttekt embættis landlæknis að undirmönnum og skortur á hjúkrunarrýmum séu helstu ástæður alvarlegrar stöðu bráðamóttöku Landspítalans.

Alma segir að heilbrigðisráðuneytið hafi þegar brugðist við og nefnir í því samhengi að hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi og Sjúkrahótel Landspítala verði opnuð sem allra fyrst. „Þessi staða getur ekki gengið svona til lengri tíma,“ segir Alma.

Í úttektinni segir að bráðamóttöku Landspítalans takist vel að sinna bráðahlutverki sínu. Vandinn liggi í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn en meðald­val­ar­tími sjúk­linga sem bíða inn­lagn­ar á deild­ir spít­al­ans hef­ur lengst og er nú 23,3 klst., sam­an­borið við um 16,6 klst. á sama tíma í fyrra. Æskilegt viðmið er sex klukkustundir.

Þarf að mæta fjölgun aldraðra

„Það eru of fá virk pláss. Það bíða yfir 50 eftir úrræðum utan spítalans og eru svo 35 rúm lokuð vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Það væri best ef hægt væri að finna úrræði fyrir aldraða,“ segir Alma og ítrekar hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi.

„Til lengri tíma þarf auðvitað að byggja upp þjónustu við aldraða til að mæta fjölgun þeirra,“ segir Alma og nefnir í því samhengi hjúkrunarrými, heimahjúkrun, heimaþjónustu, dagdvalarúrræði og heilsueflingu þannig að fólk geti verið heima hjá sér eins lengi og unnt er.

Alma bendir á að síðasta vor hafi verið kynnt áætlun en á næstu árum er áætlað að ráðast í upp­bygg­ingu hjúkr­un­ar­rýma á landsvísu fyr­ir 10,5 millj­arða króna.

Fjöldi lokaðra rúma vegna hjúkrunarfræðingaskorts hefur aukist ár frá ári. Þau voru átta í lok árs 2016 en eru nú 35. Alma segir að skortur á hjúkrunarfræðingum sé flókið mál. „Í okkar úttekt vitnum við í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem segir að áætlað sé að það vanti yfir 500 hjúkrunarfræðinga og að 20% þeirra sem eru starfandi geti hafið töku lífeyris á næstu árum.“

Ósáttir hjúkrunarfræðingar leita annað

Landlæknir segir að það þurfi að auka nýliðun og fjölga nemum. Auk þess þurfi að endurskoða vinnuumhverfi, vinnuskipulag og kjör hjúkrunarfræðinga. „Þær hafa svolítið horfið til annarra starfa og eru ósáttar við kjör sín,“ segir Alma og bætir við að í skýrslu Ríkisendurskoðunar komi fram að laun hjúkrunarfræðinga séu 12% lægri en sambærilegra háskólastétta. Auk þess vanti sjúkraliða.

Landlæknir segir að það þurfi að byggja upp þjónustu við …
Landlæknir segir að það þurfi að byggja upp þjónustu við aldraða til að mæta fjölgun þeirra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í úttektinni er bent á að álag geti bitnað bæði á starfsfólki og sjúklingum. „Þetta er vítahringur. Ef starfsfólki fækkar þá eykst álagið á þá sem eftir eru og það þarf að rjúfa þann vítahring. Það kom fram í viðtölum við starfsfólk að því finnst álagið of mikið og veikindatölur voru frekar háar á þeim tveimur legudeildum sem við skoðuðum,“ segir Alma og bendir á að undir miklu álagi sé meiri áskorun að tryggja að allt sé vel gert.

„Við lýsum yfir áhyggjum af því að þegar mestu álagstopparnir koma er mikil áskorun að tryggja öryggi og að allt gangi vel. Þess vegna er svo brýnt að bregðast við þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert