Kjaraviðræður þokast áfram

Undirhópar SGS og SA vegna kjaraviðræðna funduðu í dag. Framkvæmdastjóri …
Undirhópar SGS og SA vegna kjaraviðræðna funduðu í dag. Framkvæmdastjóri SGS segir sambandið hóflega ánægt. mbl.is/Eggert

Fundum undirhópa í tengslum við kjarasamningaviðræður Starfsgreinasambandsins (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) lauk um klukkan fjögur í dag og segir framkvæmdastjóri SGS, Flosi Eiríksson, fundina hafa gengið vel.

„Við teljum að það hafi þokast áfram í ýmsum málum í dag og menn ætla að funda meira í vikunni. Við erum hóflega ánægð eftir daginn,“ segir Flosi.

mbl.is/Eggert

Hóparnir eru myndaðir til þess að ræða sérstök álitamál innan hverrar stéttar og ákvæði í kjarasamningum sem þær varða. Var meðal annars fundað í dag um mál hópferðabílstjóra og mötuneytisstarfsmanna.

Tekið var eftir því að fulltrúar Eflingar og formaður þess, Sólveig Anna Jónsdóttir, tóku þátt í fundum SGS og SA í dag, en félagið hefur ásamt Verkalýðsfélagi Akraness afturkallað samningsumboð sitt til SGS og gengið til samstarfs við VR. Eru samningaviðræður þeirra við SA nú hjá ríkissáttasemjara.

Þrátt fyrir að starfandi séu tvær samninganefndir, SGS annars vegar og VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness hins vegar, tekur Efling þátt í starfi í undirhópum SGS samkvæmt samkomulagi. „Starfsgreinasambandið er alveg heilt í því […] en það varð samkomulag um að halda áfram þessu starfi sameiginlega í undirhópunum,“ útskýrir Flosi.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var meðal fulltrúa á fundunum …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var meðal fulltrúa á fundunum í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert