Stakk af eftir ofsaakstur í Ártúnsbrekku

Tómas Þröstur Rögnvaldsson þakkar fyrir að ekki hafi farið verr þegar silfurgrár Mercedes Benz birtist óvænt og skall framan bifreið hans á hádegi á sunnudag í Ártúnsbrekkunni. Samkvæmt vitnum var Benz-bifreiðinni ekið á ofsahraða af aðrein inn á N1-bensínstöðina í Ártúnsbrekkunni þar sem bílstjórinn missti stjórn á bifreið sinni með fyrrnefndum afleiðingum.

Tómas og eiginkona hans voru tvö í bílnum þegar atvikið átti sér stað en Tómas náði því á myndbandsupptöku. Bílstjóri Benz-bifreiðarinnar stakk af af vettvangi eftir áreksturinn og hefur hann ekki enn fundist samkvæmt heimildum mbl.is.

Tómas segist hafa rætt við konu sem var rétt á eftir þeim upp brekkuna og sagði hún minnstu hafa munað að Benzinum hefði verið ekið á hennar bifreið líka. „Benzinn fór fram hjá henni á fullri ferð,“ segir Tómas.

Bifreiðin sést hér vinstra megin stinga af frá vettvangi.
Bifreiðin sést hér vinstra megin stinga af frá vettvangi. Skjáskot úr myndskeiðinu

Að sögn vitna var kona í bifreiðinni sem olli árekstrinum en Tómas tilkynnti málið til lögreglu og gaf skýrslu. Bíll þeirra hjóna er óökufær. 

„Þeir eru að skoða þetta en eftir því sem ég best veit er ökumaðurinn ófundinn,“ segir Tómas en hann vonast til að myndbandsupptakan hjálpi til við að hafa uppi á ökumanninum. 

„Bíllinn er grár og skemmdur á vinstri hlið og hægri afturenda sem rakst út í vegrið eins og sést þegar hann ekur í burtu á myndbandinu,“ segir Tómas en hann segir líklegast að umrædd bifreið sé 2003 til 2007 árgerð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert