Þurfa 48 milljónir til að klára stíginn

Eins og sjá má er ástandið slæmt við Fjaðrárgljúfur.
Eins og sjá má er ástandið slæmt við Fjaðrárgljúfur. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Áætlaður kostnaður við að ljúka uppbyggingu nýs göngustígs meðfram Fjaðrárgljúfri að austan er 48 milljónir króna og hefur Umhverfisstofnun lagt til að framkvæmdin verði fjármögnuð á þessu ári. Beðið er eftir svörum frá ríkinu. Vinna við göngustíginn hófst í sumar og til þessa hefur tíu milljónum króna verið varið í verkefnið.

Þetta segir Hákon Ásgeirsson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is.

Fram kom á vefsíðu stofnunarinnar í dag að frá og með morgundeginum hefur verið ákveðið að loka Fjaðrárgljúfri vegna tíðarfars og ágangs ferðamanna. Göngustígur liggur undir skemmdum og er illfær vegna aurbleytu og leðju. Þess vegna ganga gestir utan við stíginn og valda skemmdum á gróðri.

„Ófærir af drullu“

Hákon segir brýna nauðsyn að klára uppbyggingu göngustíga á svæðinu. „Ástandið er þannig á göngustígunum að þeir eru bara ófærir af drullu þegar frost fer úr jörðu. Þeir eru bara ekki gerðir fyrir ferðamannastrauminn á veturna. Það þarf að byggja þessa göngustíga upp svo að þeir virki á veturna,“ segir hann og nefnir að búið sé að hanna nýja göngustíginn og skipuleggja hann. Eingöngu er beðið eftir fjármagni til að geta klárað hann.

Hann segir að mögulega verði fjármögnun stígsins á landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Um er að ræða þriggja ára áætlun sem er endurskoðuð á hverju ári.

Aðspurður segir Hákon að ferðaþjónustuaðilar hafi bent á hið slæma ástand sem hefur verið á svæðinu. Ábending kom svo frá heimamönnum nýverið um að það væri orðið mjög slæmt.

Landvarsla hefur verið aukin á svæðinu frá ári til árs. Á síðasta ári var landvörður þar frá miðjum mars til áramóta. Á meðan svæðið er lokað verður landvörður þar til að framfylgja lokuninni.

181 þúsund gestir

Niðurstöður talninga Rögnvaldar Ólafssonar og Gyðu Þórhallsdóttur á fjölda gesta í Fjaðrárgljúfri frá 1. júní til 30. september í fyrra eru að 181.910 manns heimsóttu svæðið. Þetta eru um 15.200 fleiri gestir en á sama tímabili árið 2017 og 76.648 fleiri en á sama tímabili árið 2016.

Mesta fjölgunin var í júlí eða 16%. Flestir gestir komu í ágúst, 49.577 manns. Í september komu álíka margir eða 48.948 eða að meðaltali 1.632 manns á dag. Þetta eru 12% fleiri gestir í september miðað við sama tíma árið 2017 og 49% fleiri en árið 2016.

Fjaðrárgljúfur var einnig lokað í vor og því teljast fáir inn á svæðið á þeim tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert