Verkalýðsfélag Grindavíkur vísar deilunni til ríkissáttasemjara

Frá fundi SGS og SA í morgun.
Frá fundi SGS og SA í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkalýðsfélag Grindavíkur hefur afturkallað samningsumboð sitt í kjaraviðræðum frá Starfsgreinasambandinu og vísað kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara. Félagið hefur óskað eftir samstarfi við VR, Verkalýðsfélag Akraness og Eflingu.

Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, telur nauðsynlegt að setja aukinn þrýsting á viðræðurnar. „Það er ekkert að gerast að okkar mati,“ segir Hörður en undirhópar SGS og Samtaka atvinnulífsins hafa fundað stíft í gær og í dag.

Á fundi Verkalýðsfélags Grindavíkur 2. janúar sl. var Herði falið að meta stöðuna á nýju ári og afturkalla umboðið frá SGS ef þörf væri á. „Í framhaldi af því og í samræmi við ályktunina ákvað ég að stíga þessi skref í dag,“ segir Hörður en hann greindi samninganefnd SGS frá möguleikanum á þessari ákvörðun á föstudaginn.

Um 1.200 félagsmenn eru í Verkalýðsfélagi Grindavíkur. Flestir þeirra starfa við fiskvinnslu en einnig önnur störf, s.s. ferðaþjónustu, og fer hlutur starfsmanna í ferðaþjónustu vaxandi innan félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert