Ákærður fyrir að veitast að lögreglu

Maðurinn er ákærður brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- …
Maðurinn er ákærður brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og lögreglulögum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann á þrítugsaldri fyrir að ráðast í tvígang gegn lögreglumönnum með ofbeldi. Þar að auki er hann ákærður fyrir að hafa haft ávana- og fíkniefni í vörslum sínum.

Mun maðurinn hafa veist með ofbeldi að lögreglumönnum í nóvember 2017 og í janúar 2018. Við leit á klæðum hans eftir handtökuna í nóvember fundust þar að auki ávana- og fíkniefni í vörslum mannsins.

Í nóvember 2017 er manninum gert að hafa veist að lögreglumanni, sem sat í farþegasæti lögreglubifreiðar við Snorrabraut, reynt að slá hann með krepptum hnefum og hótað honum líkamsmeiðingum.

Spyrnti hurð lögreglubifreiðar aftur

Hlýddi hann ekki fyrirmælum lögreglu um að láta af háttsemi sinni og hindraði störf lögreglu með því að spyrna hurð lögreglubifreiðarinnar aftur og halda henni þegar lögreglumaðurinn reyndi að komast út úr bifreiðinni. Við leit í klæðum hans á lögreglustöðinni á Hverfisgötu eftir handtöku fundust 3,45 g af amfetamíni, 1,54 g af kókaíni og 0,89 g af maríjúana.

Í janúar 2018 veittist maðurinn með ofbeldi að lögreglumanni við skemmtistaðinn Moe‘s við Jafnasel. Klóraði hann lögreglumanninn í framan og reyndi ítrekað að slá hann í andlit.

Maðurinn er ákærður fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og lögreglulögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert