Fara yfir kröfugerðir hjá ríkissáttasemjara

Forsvarsmenn nokkurra stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins funda nú hjá ríkissáttasemjara.
Forsvarsmenn nokkurra stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins funda nú hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari gerir ekki ráð fyrir að nokkuð afgerandi komi í ljós á öðrum fundi stéttarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og ríkissáttasemjara, en fundurinn hófst nú klukkan tíu í morgun. „Þau eru að kynna kröfugerðir sínar fyrir mér,“ segir hún. Aldrei sé þó að vita nema komi gangur á málin, segir hún.

Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, fellst á að gera samninga við VR, Eflingu og Verkalýðsfélag Akraness afturvirka gegn því að það tilboð falli niður ef kemur til verkfalla og ef viðræðum er slitið. „Það eina sem mun gerast á þessum fundi er annars að aðilar muni fara yfir kröfugerðirnar,“ segir Halldór.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem einnig tók samningsumboð Starfsgreinasambandsins til baka á dögunum, segir óljóst hvað kemur fram á fundinum. Hann segir þó að sennilega komi ekkert í ljós á fundinum sem skeri endanlega úr hvort komi til verkfalla eða ekki.

Fundurinn hjá ríkissáttasemjara ætti að vara í um klukkustund en hann hófst rúmlega tíu. Bryndís Hlöðversdóttir segir þó að ef gangur kemur á málin haldi fundurinn áfram eftir þörfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert