Mikilvægt er að skrá lögheimili sitt rétt

Þjóðskrá Íslands er í Höfðaborg í Reykjavík og er einnig …
Þjóðskrá Íslands er í Höfðaborg í Reykjavík og er einnig með afgreiðslu á Akureyri. Hægt er að reka mörg erindi á heimasíðunni skra.is mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Breytingar urðu á tilkynningu og skráningu lögheimilis og aðseturs með nýjum lögum (80/2018) sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn.

„Að mínu mati er mesta breytingin sú að tilkynningar um flutning lögheimilis fara nú að mestu fram með rafrænum hætti og því fylgir heilmikið hagræði,“ sagði Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands og staðgengill forstjóra. Hún sat í starfshópi sem undirbjó lagasetninguna. Ástríður segir ljóst að ekki séu allir íbúar komnir með rafræn skilríki. Þeir sem ekki hafa slík skilríki geta komið í afgreiðslur Þjóðskrár Íslands í Reykjavík og á Akureyri til að tilkynna lögheimili. Fólk sem er að flytja til landsins getur auk þess tilkynnt lögheimili sitt á skrifstofum lögreglunnar.

Hún segir heilmikil nýmæli vera í því að hjón megi nú hafa lögheimili hvort á sínum stað. Báðir aðilar þurfa að samþykkja slíka skráningu. Einnig er búið að skerpa á ýmsum frestum og eftirlitsheimildum sem Þjóðskrá Íslands hefur til að fylgja málum eftir.

Ástríður segir að með nýju lögunum séu gerðar ríkari kröfur en áður til einstaklinganna sjálfra að þeir viðhaldi réttri lögheimilisskráningu. „Það eru gríðarlega mikil réttindi bundin við skráningu lögheimilis og því mjög mikilvægt að það sé rétt skráð,“ sagði Ástríður. Brot gegn ákvæðum um skráningu lögheimilis og aðseturs geta varðað sektum.

Farið er yfir helstu breytingarnar sem urðu með nýju lögunum á heimasíðu Þjóðskrár Íslands (skra.is). Þar segir m.a. að leidd hafi verið í lög víðtækari skilgreining á húsnæði þar sem skrá má lögheimili. Þannig má nú skrá lögheimili á stofnunum fyrir aldraða, í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og á áfangaheimilum og í starfsmannabústöðum þótt húsnæðið sé ekki skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá.

Skerpt var á muninum á lögheimili og aðsetri. Lögheimili er fastur búsetustaður en aðsetur er tímabundin búseta. Tímabil aðsetursskráningar erlendis vegna náms eða veikinda er nú skilgreint. Aðsetursskráning vegna veikinda gildir í eitt ár en í fjögur ár vegna náms. Endurnýja þarf staðfestingu á námi eða veikindum að fresti loknum.

Fasteignaeigendur ábyrgir

Þinglýstir eigendur fasteigna bera nú ábyrgð á að skráning lögheimilis aðila sem hafa fasta búsetu í húsnæði í þeirra eigu sé rétt. Þjóðskrá Íslands á að senda tilkynningu í pósthólf þinglýsts eiganda fasteignar um þá sem skrá lögheimili sitt í fasteign í hans eigu. Ástríður segir að segja megi að þetta sé nýtt. Í eldri lögum hafi verið talað um ábyrgð húsráðanda ef einstaklingar voru ranglega skráðir í hús. Nú bera þinglýstir fasteignaeigendur ábyrgð og eftirlitsskyldu. Þeir eiga að vita hverjir búa í húsnæði í þeirra eigu enda munu þeir fá sendar rafrænar tilkynningar um breytingar á skráningum lögheimilis í pósthólfið á Mínum síðum hjá island.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert