Sendi foreldrum kynlífsmyndir af dóttur sinni

Maðurinn hótaði fjölskyldu konunnar að dreifa myndum af henni víðar.
Maðurinn hótaði fjölskyldu konunnar að dreifa myndum af henni víðar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðssaksóknari hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn karlmanni sem talinn er hafa brotið gegn fyrrverandi eiginkonu sinni með því að senda foreldrum konunnar, systur og unnusta myndir af henni í kynlífsathöfnum í gegnum skilaboðaforrit Facebook.

Hótaði maðurinn enn fremur að birta myndina og kynlífstengd myndbönd af konunni á Facebook-síðu sinni, eða senda myndefnið til annarra í fjölskyldu konunnar.

Myndina sendi maðurinn foreldrum og systur konunnar sunnudaginn 28. febrúar 2016, að því er fram kemur í ákæru, en en fyrr sama dag hafði hann sent myndina til unnusta konunnar með hótunum um að myndinni yrði dreift til fjölskyldu hans.

Segir í ákærunni að maðurinn hafi með háttsemi sinni sært blygðunarsemi konunnar, móðgað hana og smánað, auk þess sem hann hafi valdið henni ótta um velferð sína. Slíkt sé brot gegn 209. grein almennra hegningalaga, sem kveður á um að hver sá „sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna“ skuli sæta allt að 4 ára fangelsi. Einnig sé um að ræða brot gegn 233. grein sömu laga, en b.-liður þeirrar greinar kveður á um að hver sá sem móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka með verknaði sem feli „í sér stórfelldar ærumeiðingar“ skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum.

Er þess krafist í ákærunni að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, en auk þess hefur konan lagt fram einkaréttarkröfur þess efnis að manninum verði gert að greiða henni eina milljón króna í miskabætur að viðbættum dráttarvöxtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert