Finni synti í Jökulsárlóni þrátt fyrir bann

Það er stórhættulegt að fara út í Jökulsárlón.
Það er stórhættulegt að fara út í Jökulsárlón. mbl.is/Rax

Finninn Janrik Häkkinen birti myndskeið á Instagram-síðu sinni milli jóla og nýárs þar sem hann sést synda í Jökulsárlóni. Íslendingum, sem birta athugasemdir við sundið, er ekki skemmt.

„Þetta er óábyrgt. Skilti við lónið segja að þar sé bannað að synda og auk þess segja leiðsögumenn að það sé mjög hættulegt, jafnvel lífshættulegt, að synda þarna. Ekki þess virði,“ skrifar enskur ljósmyndari í athugasemd við færslu Häkkinen.

Sjálfur segist Finninn hafa stundað íssund árum saman og að það hafi góð áhrif á hann. Einhverjar athugasemdir snúa að því að athæfið hafi verið vel til fundið og að hann sé strákur sem njóti lífsins.

„Þú birtir myndskeið af þér syndandi í Jökulsárlóni eins og það sé svalt! Ferðamenn munu halda að það sé í góðu lagi vegna þess að þeir vita ekki betur og munu herma eftir þér. Fólk eins og þú ert til vandræða á Íslandi og björgunarsveitirnar okkar þurfa að bjarga svona fólki. Ég er í björgunarsveit og vil þakka þér fyrir að vera fáviti,“ skrifar íslensk kona.

Áður hefur verið greint frá því að ekki er algengt að ferðamenn klifri upp á eða syndi í Jökulsárlóni, þó það komi fyrir. Stórhættulegt er að synda í lóninu en hreyfingin á ísjökunum gerir það að verkum að auðvelt er að verða innlyksa milli jaka eða kremjast á milli þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert