Töldu að til stæði að breyta innganginum

Hótelið sem rísa á við Austurvöll. Minjastofnun taldi samkomulag hafa …
Hótelið sem rísa á við Austurvöll. Minjastofnun taldi samkomulag hafa náðst um að breyta inngangi að hótelinu.

Minjastofnun Íslands tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að skyndifriða þann hluta Víkurkirkjugarðs sem er innan byggingasvæðisins á Landssímareitnum svonefnda við Austurvöll. Er þetta stækkun á því svæði sem greint hafði verið frá fyrr um daginn að mennta­málaráðherra hefði staðfest að fall­ist yrði á friðlýs­ing­ar­til­lögu um.

Skyndifriðunin, sem tók gildi samstundis, gildir í allt að sex vikur eða þar til ráðherra hefur ákveðið hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar að fenginni tillögu Minjastofnunar. Um er að ræða austasta hluta hins forna Víkurkirkjugarðs eins og hann var er garðurinn var aflagður árið 1838.

Fyrri friðlýsingin, sem mennta- og menningamálaráðuneytið tilkynnti um í gær, tekur til leif­a kirkju og kirkju­g­arðs og annarra forn­minja inn­an lóðarmarka Vík­urg­arðs (gamla kirkju­g­arðsins við Aðalstræti), sem verið hafði til um­fjöll­un­ar í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytinu.

Víkurkirkjugarður. Mynd úr safni.
Víkurkirkjugarður. Mynd úr safni.

Í frétt á vef Minjastofnunar segir að gripið sé til þessara ráðstafana þar sem ljóst hafi verið af samskiptum við lóðarhafa í lok síðasta árs að þeir hafi ekki haft hug á „að breyta inngangi hótelsins eins og Minjastofnun hafði lagt til og hafði ástæðu til að ætla að hefði verið samþykkt“.

Þess í stað hafi Lindarvatn, sem stendur að framkvæmdunum, nú mögulega uppi áform um tvo innganga sem vísa að Víkurgarði og því ljóst að ætlunin sé að nýta garðinn sem aðkomusvæði hótelsins. Slíkt sé „algerlega óásættanlegt af hálfu Minjastofnunar Íslands“ sem segir þetta hafa ítrekað komið fram á fundum og í erindum til lóðarhafa.

Í 20. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 kemur fram að Minjastofnun Íslands getur ákveðið skyndifriðun menningarminja sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, en hafa þó ekki verið friðlýstar eða njóta lögbundinnar friðunar, sé hætta á að minjunum verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert