Eldsupptök ókunn og málinu lokið

Slökkviliðsmenn að störfum við Hvaleyrarbraut í nóvember.
Slökkviliðsmenn að störfum við Hvaleyrarbraut í nóvember. mbl.is/Hari

Rannsókn á upp­tök­um elds­voðans sem kom upp í iðnaðar­hús­næði við Hval­eyr­ar­braut í Hafnar­f­irði í nóv­em­ber er lokið. Ekki er hægt að segja með óyggjandi hætti hver upptökin eru en þó er hægt að segja nokkurn veginn hvar eldurinn kom upp.

Þetta segir Skúli Jóns­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í sam­tali við mbl.is.

Hann segir að rannsókn málsins hafi verið snúin vegna þess að húsnæðið var afskaplega illa farið en slökkviliði tókst að slökkva eldinn eftir þriggja daga baráttu. Hús­næðið við Hval­eyr­ar­braut, sem er á tveim­ur hæðum, er nán­ast al­veg ónýtt eft­ir elds­voðann

„Miðað við öll gögn sem við höfum aflað í þessu máli, bæði vettvangsvinnu, viðtöl við vitni og eigendur, þá eru eldsupptök á efri hæðinni við vestari hluta hússins,“ segir Skúli.

Hann bætir því við að rannsakað hafi verið hvort eldur hafi kviknað út frá rafmagni. Einhver tæki eða hluti úr tækjum hafi verið í hleðslu í grennd við eldsupptök en ekkert sé hægt að staðfesta hvort það eigi hlut að máli.

Skúli seg­ir að eng­inn sé grunaður um að hafa valdið elds­voðanum og ekki sé grunur um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað og að málinu sé lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert