Gert klárt fyrir hvalina hvítu

Aðstaða fyrir mjaldrana er komin upp í Klettsvíkinni og þar …
Aðstaða fyrir mjaldrana er komin upp í Klettsvíkinni og þar verður hægt að skoða dýrin. Þarna verða aðalheimkynni þeirra á svipuðum slóðum og Keikó dvaldi á fyrir um 20 árum. mbl.is/Ómar

Nú styttist í að mjaldrarnir hvítu, Litla-Hvít og Litla-Grá, komi alla leið frá Kína til Vestmannaeyja. Þar verða heimkynni þessara smáhvela til framtíðar, en eftir að hafa dvalið í sjávardýragarði í Sjanghæ eru þeir að komast á eftirlaun, eins og það var orðað í Morgunblaði mánudagsins.

Alþjóðlegt fyrirtæki stendur að baki verkefninu, en lundinn og pysjueftirlitið njóta góðs af, með lundaspítala og sýningarsvæði. Mjöldrunum er ætlaður staður í Klettsvík þar sem ferðamenn geta skoðað þá og í Eyjum er byggt á reynslu frá Keikó-ævintýrinu fyrir rúmum tveimur áratugum.

Talsverð umsvif hafa verið í Eyjum vegna komu hvalanna og til að mynda hafa allt að 40 manns starfað við uppbyggingu á hvala-, fiska- og náttúrugripasafni í gömlu Fiskiðjunni sem verður opnað í sumar. Allt er á áætlun og það er eins gott því ekki eru nema um tíu vikur þar til von er á dýrunum.

Fiskiðjan í Vestmannaeyjum sem var eitt af fjórum stóru frystihúsunum í Eyjum fram á tíunda áratug síðustu aldar hefur fengið nýtt hlutverk og reyndar fleiri en eitt. Þar er til húsa Þekkingarsetur Vestmannaeyja sem hýsir fjölda stofnana og fyrirtækja sem fylla aðra hæðina.

Á neðstu hæðinni og í viðbyggingu er verið að útbúa stórt náttúrugripasafn, skrifstofur Vestmannaeyjabæjar verða á þriðju hæðinni og íbúðir á efstu hæðinni. Safnið er byggt upp af Merlin Entertainment sem ætlar að flytja mjaldrana tvo úr safni sínu í Sjanghæ í Kína tíu þúsund kílómetra leið til Keflavíkur og þaðan til Vestmannaeyja. Framtíðarheimilið verður í kví í Klettsvík, að því er fram kemur í umfjöllun um undirbúning komu hvalanna til Eyja í Mmorgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert