Ráðherrar heimsóttu Landspítalann

mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafa kynnt sér aðstæður á Landspítalanum í morgun. Fyrst heimsóttu þær bráðamóttökuna í Fossvogi og fóru eftir það yfir á Landspítalann við Hringbraut. 

Heimsóknin er óvenjuleg fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn á þessari öld sem forsætisráðherra Íslands heimsækir Landspítalann.

Embætti landlæknis barst í byrjun desember ábending um alvarlega stöðu sem hafði skapast á bráðamóttöku Landspítalans og brást embættið við með því að hefja samdægurs hlutaúttekt á stöðunni með heimsóknum, rýni á gögnum og viðtölum við starfsfólk og stjórnendur.

Niðurstaða úttektarinnar var að bráðamóttöku spítalans takist vel að sinna bráðahlutverki sínu. Vandinn liggi í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn og er meðaldvalartími þeirra sem bíða innlagningar á deildir spítalans 23,3 klukkustundir, samanborið við 16,6 klukkustundir í fyrra. Æskilegt viðmið er sex klukkustundir.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í viðtali við Kastljós í vikunni að Landspítalinn sé í raun stærsta hjúkrunarheimili landsins. Hann sagði mikilvægt að stjórnvöld bæti við hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu og að fleira heilbrigðisstarfsfólk fáist til starfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert