„Smyrja raddböndin með góðu öli“

Strákarnir okkar voru bæði einbeittir og afslappaðir á æfingu liðsins …
Strákarnir okkar voru bæði einbeittir og afslappaðir á æfingu liðsins í dag. Ljósmynd/Kjartan Vídó Ólafsson

„Stemningin fer vaxandi – það kom full flugvél af stuðningsmönnum í dag og það kemur full vél á morgun. Svo er Sérsveitin mætt,“ segir Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri HSÍ, í samtali við mbl.is. Kjartan er staddur í Þýskalandi og tekur þátt í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik sem hófst í dag.

Fyrsti leikur Íslands er á morgun í Ólympíuhöllinni í München klukkan sex að staðartíma en klukkan fimm að íslenskum tíma. Þá taka strákarnir okkar á móti fornum fjendum í króatíska landsliðinu.

„Upphitun byrjar klukkan tvö hjá íslenskum stuðningsmönnum. Íslendingarnir ætla að hittast í bjórgarði í Ólympíuhöllinni í München,“ segir Kjartan, greinilega spenntur fyrir komandi átökum. Hann nýtir tækifærið og skýtur skemmtilegum fróðleik að blaðamanni mbl.is.:

Sögulegur leikvangur

„Þar spilaði nú íslenskt handboltalið á Ólympíuleikum í fyrsta skiptið – fyrsta skiptið sem þeir fóru á Ólympíuleika árið 1972 þá voru þeir í þessari höll,“ segir Kjartan áður en hann heldur áfram að útskýra dagskrána næstu daga.

Kjartan telur að milli 200 og 300 íslenskir stuðningsmenn séu nú þegar mættir til München og að þeir verði hátt í 700 talsins á leiknum á morgun.

„Það eru hópar af Íslendingum niðri í miðbæ að hittast og smyrja raddböndin með góðu öli þannig að það verða allir klárir á morgun, bæði strákarnir okkar og stuðningsmennirnir,“ bætir hann við.

Eins og áður segir hefst upphitun stuðningsmanna klukkan 14 að staðartíma í bjórgarði í Ólympíuhöllinni á morgun. Á sunnudag hefst upphitun klukkan þrjú á sama stað. Engin formleg dagskrá verður í bjórgarðinum en Sérsveitin tekur stuðningssöngva og býður upp á andlitsmálun. „Það er bara að mæta og njóta þess að vera saman,“ segir Kjartan að lokum.  

Það er jólalegt og kalt í miðborg München. Íslensku stuðningsmennirnir …
Það er jólalegt og kalt í miðborg München. Íslensku stuðningsmennirnir ættu að kunna að meta það. Ljósmynd/Kjartan Vídó Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert