Strætó gert að skera niður í leiðakerfinu

Strætó númer 14 ekur Lækjargötu í desember. Breytingar á leiðinni …
Strætó númer 14 ekur Lækjargötu í desember. Breytingar á leiðinni hafa tekið gildi, sem skila 40 milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli. mbl.is/Hari

Eigendur Strætó bs., sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, gerðu kröfu um 95 milljóna króna hagræðingu í leiðakerfinu á árinu 2019. Stjórn Strætó samþykkti á fundi sínum rétt fyrir jól að ráðast í fjórar aðgerðir til þess að mæta þessari sparnaðarkröfu, en meðal annars verður sumaráætlun með minni tíðni tekin upp á ný á þremur leiðum.

„Það kom krafa frá stjórn um 95 milljóna króna hagræðingu og samkvæmt gögnunum okkar teljum við að þessar breytingar skerði þjónustuna eins lítið og möguleiki var fyrir hendi,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, um þessar breytingar, sem áætlað er að skila muni Strætó um 100 milljóna króna hagræðingu á ársgrundvelli.

Ein aðgerð er þegar komin til framkvæmda, en það er stytting strætóleiðar 14, sem hefur vakið blendin viðbrögð hjá notendum eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Í stað þess að aka Hringbraut og Lækjargötu og fara fram hjá Háskóla Íslands ekur leið 14 nú um Hverfisgötu á leið sinni frá Hlemmi og út á Granda. Þessi stytting leiðarinnar skilar um 40 milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli.

Önnur aðgerðin er sú að hætta akstri klukkustund fyrr á sunnudagskvöldum, allan ársins hring, þ.e. að síðasta ferð allra leiða verði farin á milli 23 og miðnættis í stað miðnættis og 1 eins og aðra daga. Gert er ráð fyrir því að þessi breyting taki gildi í fyrsta lagi í febrúar eða mars, þar sem tíma þarf til að undirbúa hana, en það að hætta akstri fyrr á sunnudagskvöldum mun skila 10,5 milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli.

Þriðja breytingin er svo að hætta akstri næturleiðar 111, sem gengið hefur úr miðbæ Reykjavíkur, í gegnum Vesturbæ og út á Seltjarnarnes, auk þess sem leiðum 101 og 106 verður breytt lítillega. Þessar breytingar munu taka gildi í febrúar eða mars.

Strætó á hraðferð um Lækjargötu. Nokkrar sparnaðaraðgerðir eru fram undan …
Strætó á hraðferð um Lækjargötu. Nokkrar sparnaðaraðgerðir eru fram undan í leiðakerfi Strætó, meðal annars að taka aftur upp sumaráætlun á þremur leiðum. mbl.is/Hari

Næturstrætó hóf akstur um helgar í byrjun árs 2018 sem tilraunaverkefni og fæstir farþegar hafa nýtt sér leið 111. Þessar breytingar á næturstrætó munu skila 3-4 milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli, en næturstrætó-verkefnið mun halda áfram að öðru leyti. Til skoðunar var að hætta alfarið með næturaksturinn um helgar og fram kemur í minnisblaði strætó um hagræðingartillögur að það hefði minnkað kostnað um 48 milljónir á ári.

Fjórða hagræðingaraðgerðin er sú að setja leiðir 18, 24 og 28 aftur á sumaráætlun, þannig að leiðirnar aki á minni tíðni yfir sumartímann. Þetta mun spara 47 milljónir króna á ársgrundveli og verða innleitt í sumar, en aðrar leiðir munu haldast óbreyttar yfir sumartímann. 

Í minnisblaði til stjórnar var síst mælt með þessari breytingu, vegna „neikvæðra áhrifa á farþega og aukinnar vinnu innanhúss hjá Strætó sem fælist í breytingunni“.

mbl.is

Bloggað um fréttina