1,4 milljarðar í viðgerðir á ráðuneyti

Fjármála- og efnahagsráðuneytið við Lindargötu í Reykjavík.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið við Lindargötu í Reykjavík. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Heildarkostnaður vegna viðgerða á húsnæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem staðið hafa yfir á undanförnum árum mun nema rúmum 1,4 milljörðum þegar þriðja og síðasta áfanganum lýkur síðar á þessu ári. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.

Í svarinu segir að framkvæmdir við endurnýjun á húsnæði ráðuneytisins hafi hafist fyrir tæpum sex árum og fela þær í sér allsherjarendurbætur á húsinu þar sem það hafi fengið lítið viðhald undanfarna áratugi. Húsið var í slæmu ásigkomulagi utan sem innan og lá ytra byrði þess undir skemmdum.

Viðgerðirnar felast meðal annars í endurnýjun allra 244 glugga hússins, þaks og þakvirkis, auk þess sem útveggir hússins voru steinaðir að nýju. Að innan þurfti að fjarlægja alla veggi, loftplötur, gólfefni, eldri innréttingar og lagnir. „Hefur húsið verið algerlega endurnýjað að innan, þ.m.t. allar lagnir, loftræsting og rafmagnskerfi hússins, auk þess sem húsnæðið hefur verið endurinnréttað í samræmi við nútímahugmyndir um opin og virknimiðuð vinnurými,“ segir í svari ráðherra. Þá hefur einnig verið sett upp lyfta sem var ekki áður í húsinu.

Þegar framkvæmdunum lýkur verður öll starfsemi ráðuneytisins á einum stað í stað þriggja líkt og hún er nú. Kostnaður vegna þeirra áfanga sem er lokið nemur 860 milljónum en áætlaður kostnaður vegna þriðja og síðasta áfanga er um 560 milljónir. Samanlagður kostnaður viðgerðanna nemur því rúmlega 1,4 milljörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert