Aldursgreining tanna samræmist siðareglum

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vildi fá að vita hvort aldursgreining …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vildi fá að vita hvort aldursgreining tanna umsækjenda um alþjóðlega vernd samræmdist siðareglum lækna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar barna og ungmenna byggist á alþjóðlegum, vísindalega viðurkenndum og gagnreyndum aðferðum og samræmist siðareglum lækna. Þetta er svar Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar um aldursgreiningar og siðareglur lækna. 

Logi spurði ráðherra hvort hann teldi aldursgreiningu, og þá sérstaklega tanngreiningu, á umsækjendum um alþjóðlega vernd, samræmast siðareglum lækna og eins spurði hann hvort að heilbrigðisyfirvöld hefðu tjáð afstöðu sína til líkamlegra aldursgreininga.

Í svörum ráðherra segir að læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum  beri samkvæmt lögum að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur.

Ráðherra hafi óskað álits landlæknis á því hvort aldursgreining á tönnum samræmist lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Fram komi í umsögn landlæknis að ekki verði annað séð en „að þeir sérfræðingar sem sinna aldursgreiningum á tönnum vinni samkvæmt faglegum kröfum og af virðingu við viðkomandi einstaklinga“ og að aldursgreining á tönnum samræmist siðareglum lækna.

„Réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar barna og ungmenna byggjast á alþjóðlegum, vísindalega viðurkenndum og gagnreyndum aðferðum,“ segir í svarinu, en ráðherra sé ekki kunnugt um það að öðru leyti en því sem að framan greinir að heilbrigðisyfirvöld hafi tjáð afstöðu sína til líkamlegra aldursgreininga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert