Ekki unnt að meta umfang kennitöluflakks

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands voru alls 9.250 félög tekin til …
Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands voru alls 9.250 félög tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu 2003 til 2013, af tæplega 350 þúsund félögum sem á skrá voru. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu miklum skatttekjum ríkissjóður hefur orðið af vegna kennitöluflakks eða hvert árlegt tap ríkissjóðs er vegna þess, en á meðan tölulegar upplýsingar um eignarhald á félögum og hverjir standa þar að baki er erfitt að leggja mat á umfang kennitöluflakks á Íslandi.

Þetta kemur fram í svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Willums Þórs Þórssonar um kennitöluflakk.

Þar segir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi kannað leiðir til þess að greina umfang kennitöluflakks fyrir nokkru og leitað hafi verið til Hagstofu Íslands, ríkisskattstjóra, tollstjórans í Reykjavík og Ábyrgðasjóðs launa. Engin þessara stofna safni tölulegum upplýsingum um eignarhald á félögum og hverjir standi þar að baki.

Sem vísbendingu um þann fjölda sem til greina kom við skoðun á kennitöluflakki vísar ráðherra í svari sínu til þess að samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands hafi alls 9.250 félög verið tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu 2003 til 2013, af tæplega 350 þúsund félögum sem á skrá voru á tímabilinu eða hluta þess, eða 2% skráðra félaga.

Alls hafi 5.178 ný félög verið skráð frá 2008 til 2012, en þar af hafi 259 einstaklingar verið að skipta um kennitölu, eða 2% einstaklinga.

Leggja fram frumvarp í febrúar

Í svari við þeim lið fyrirspurnarinnar sem snýr að því hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að sporna við kennitöluflakki segir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafi undanfarin misseri haft til skoðunar tillögur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands frá júní 2017 um leiðir til þess að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri.

Afrakstur þeirrar vinnu séu meðal annars drög að frumvarpi sem sé í vinnslu og stefnt að því að leggja fram í febrúar 2019. Markmið frumvarpsins sé að bregðast við misnotkun á hlutafélagaforminu, og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert