Grunaður um mansal og smygl á fólki

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að karlmaður frá Pakistan sæti farbanni til 6. febrúar.

Fram kom í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness að lögreglan telji að rökstuddur grunur sé um að maðurinn stundi mansal hér á landi, skipulagt smygl á fólki til og frá landinu, skjalabrot, fjársvik og peningaþvætti þar sem hann nýti sér nauðung erlendra ríkisborgara í hagnaðarskyni með því að útvega fölsuð skilríki og/eða skilríki annarra og afhenda þau til notkunar gegn gjaldi og útvegi þeim starf með ólögmætum hætti.

Lögreglan telur einnig rökstuddan grun um að kærði stundi umfangsmikil fjársvik, afli sér fjölda farsíma, m.a. með stolnum beiðnabókum frá Reykjavíkurborg, og sendi þá til Bretlands.

Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að rannsókn málsins hafi verið umfangsmikil og standi enn yfir. „Fallist er á meðhéraðsdómi að varnaraðili sé enn undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari og má ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki gert að sæta farbanni. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, til að fallast megi á kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur,“ segir í niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert