Kæru vegna nálgunarbanns vísað frá

Hæstiréttur Íslands vísaði frá kæru úrskurðar um nálgunarbann.
Hæstiréttur Íslands vísaði frá kæru úrskurðar um nálgunarbann. mbl.is/Golli

Hæstiréttur Íslands vísaði í dag frá kæru manns sem hafði verið gert að sæta tveggja mánaða nálgunarbanni gagnvart eiginkonu sinni. Hann er sakaður um að hafa beitt hana ítrekað ofbeldi. Maðurinn kærði úrskurð Landsréttar frá 3. janúar og krafðist þess að hann yrði ómerktur en til vara að hann yrði felldur úr gildi eða markaður skemmri tími.

Í úrskurði héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, var farið yfir grein­ar­gerð lög­reglu vegna máls­ins sem og lög­reglu­skýrsl­ur og dag­bókar­færsl­ur vegna fyrri af­skipta lög­reglu af mann­in­um. Þar kem­ur fram að kon­an og maður­inn hafi kynnst fyr­ir tveim­ur og hálfu ári en þá hafi kon­an búið er­lend­is. Hún hafi þó fljótt flutt til Íslands og gifst mann­in­um og þau búið sam­an.

Í úrskurðinum er meintu ofbeldi og hótunum mannsins lýst ítarlega. Þar segir meðal annars að maðurinn hafi hótað konunni lífláti ef hún myndi ekki skrifa undir skjöl um skilnað.

Kæruheimild ekki til staðar

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að kæruheimild til dómsins væri ekki til staðar og vísaði kærunni því frá dómi. Var vísað til lagabreytinga á lögum um einkamál og sakamál sem tóku gildi þegar Landsréttur var stofnaður og gerður að millidómsstigi.

Í dóminum segir að í frumvarpi til breytinga á lögunum „hafi verið tekið af skarið um að kæruheimildir til Landsréttar í sakamálum yrðu þær sömu og áður til Hæstaréttar, en að kæruheimildir til Hæstaréttar yrðu hins vegar mjög takmarkaðar[…]“

Kæra mannsins var ekki hægt að heimfæra undir neina kæruheimild og var henni því vísað frá dómi.

Frá þessu var greint á vefsíðu Hæstaréttar þar sem einnig má lesa dóminn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert