Leiðaraskrif og hótanir leysi ekkert

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

„Hvorki leiðaraskrif þar sem fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar er líkt við Trump né hótanir um að selja banka í ríkiseigu verða til þess að leysa kjaradeiluna, svo það sé sagt,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í vikulegum pistli sínum.

Hún segir samningaviðræður vera í fullum gangi og að næstu dagar og vikur muni ráða úrslitum um hvort og hvenær samningar náist.

Drífa skrifar einnig um húsnæðismálin og segir þau eitt stærsta mannréttindamálið á landinu. „Það er löngu kominn tími til að húsnæðismarkaðurinn hirði ekki allar launahækkanir sem samið er um,“ segir hún og bætir við að eldri borgarar á leigumarkaði séu í sérstaklega slæmri fjárhagsstöðu.

Jafnframt minnist hún á frumvarp að lögum sem taka við af kjararáði þar sem fram komi að ráðherrar fái heimild til að hækka laun kjörinna fulltrúa strax í júlí á þessu ári, umfram hækkanirnar sem þeir hafi þegar fengið. „Framúrkeyrsla kjararáðs umfram kjarasamninga frá 2015 hefur nú þegar kostað skattgreiðendur 1,3 milljarð[a] króna. Mér dettur í hug ýmislegt sem hægt væri að gera fyrir þá peninga, til dæmis að hækka húsaleigubætur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert