Líkamsárás í miðborginni

Tilkynnt var um líkamsárás í hverfi 101 um tvö í nótt en áverkar þess sem varð fyrir árásinni eru minni háttar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur hún upplýsingar um hver árásarmaðurinn er.

Í nótt var munum stolið úr bifreið í Breiðholti en eigandi bifreiðarinnar kom að þjófnum sem stakk af á hlaupum en henti mununum frá sér á hlaupunum.

Síðdegis í gær var tilkynnt til lögreglu um hóp sem var með leiðindi við starfsfólk og viðskiptavini í verslun í Mjóddinni og var þeim vísað út úr versluninni. 

Á sjötta tímanum í gær hafði lögregla afskipti af einstaklingi sem var með fíkniefni á sér. Málið var afgreitt á staðnum.

Fjórir ökumenn sem voru undir áhrifum áfengis eða fíkniefna voru stöðvaðir í Breiðholti og Kópavogi í gærkvöldi og nótt. Þrír þeirra höfðu áður verið sviptir ökuréttindum og því ekki með bílpróf. Lögreglan fjarlægði skráningarnúmer af tveimur bifreiðanna því í öðru tilvikinu var ökutækið ótryggt en í hinu tilvikinu hafði bifreiðin ekki verið færð til skoðunar á tilsettum tíma. 

mbl.is