Öskraði á þá að færa lappirnar

Artur Pawel Wisocki við upphaf aðalmeðferðar í morgun.
Artur Pawel Wisocki við upphaf aðalmeðferðar í morgun. mbl.is/Eggert

Dyravörður af Enska barnum í Austurstræti kom fyrir héraðsdóm í dag sem vitni við aðalmeðferð Shooters-málsins. Dyraverðir á Shooters báðu hann og þrjá aðra um aðstoð við að koma ákærðu og félögum þeirra út af Shooters.

Tveir menn eru ákærðir fyr­ir lík­ams­árás­ir gegn tveim­ur dyra­vörðum en ann­ar dyra­varðanna er lamaður fyr­ir neðan háls. Art­ur Pawel Wisocki er ákærður fyr­ir tvær lík­ams­árás­ir og Dawid Kornacki er ákærður fyr­ir hlut sinn í árás­ gegn öðrum dyraverði.

Vitnið sagði að kallað hafi verið eftir aðstoð þeirra vegna þess að Dawis, Artur og félagar þeirra hafi verið með dónaskap og læti. Þegar þeim var vísað út hafi dyraverðirnir og mennirnir skipst á einhverjum orðum og menn hafi verið nokkuð æstir.

Sá mennina hlaupa aftur á Shooters

„Þetta gekk á í nokkrar mínútur áður en þeir yfirgáfu svæðið. Við vorum áfram í nokkrar mínútur, aukamennirnir, áður en við fórum og höldum að þetta sé búið,“ sagði vitnið.

Þaðan hafi hann rölt í 10/11 í Austurstræti þegar hann sá fjóra hettuklædda menn hlaupa með veggjum fram hjá Kaffi París og að Shooters, þar sem þeir ráðist að dyravörðunum. „Ég hleyp á Austur til að ná í aðstoð,“ sagði vitnið og bætti við að hann hafi ekki ætlað sér að reyna einn að stilla til friðar.

„Þegar ég kem þaðan eru fjórir menn að ráðast á annan dyravörðinn fyrir utan staðinn,“ sagði vitnið. Dyravörðurinn hafi náð að hrista þá af sér og koma sér bak við bifreið í götunni. Árásarmennirnir hafi hlaupið upp götuna þegar þeir sáu vitnið og félaga hans koma.

Fann ekkert þegar lappirnar voru færðar

Hann hafi spurt dyravörðinn fyrir framan staðinn hvar félagi hans væri en sá vissi það ekki.„Við fundum hann í tröppunum bakdyramegin en ég er held ég einn sá fyrsti sem kom að honum,“ sagði vitnið.

„Hann lá á maganum með lappirnar uppi í tröppunum, rúðan var brotin og hann gat ekki hreyft sig,“ sagði vitnið þegar hann var beðinn að lýsa því hvernig staða dyravarðarins, sem lamaðist eftir árásina, hafi verið.

„Hann bað okkur um að færa lappirnar úr tröppunum. Barþjónn færði lappirnar en hann hélt áfram að öskra á okkur að færa lappirnar. Þá föttuðum við að eitthvað er að því hann fann ekkert þegar lappirnar voru færðar,“ sagði vitnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert