Reykskynjarinn bjargaði

mbl.is/Eggert

Reykskynjari kom í veg fyrir mikinn eldsvoða í fimm hæða fjölbýlishúsi í Hafnarfirðinum í nótt. Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var tilkynnt um eld í stofu íbúðar á sjötta tímanum í nótt og fóru slökkviliðsmenn af öllum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu á staðinn. 

Í ljós kom að kviknað hafði í borði út frá kertaskreytingu og þegar reykskynjari vakti íbúa íbúðarinnar blasti við þeim varðeldur í miðri stofunni. Íbúarnir sprautuðu úr slökkvitæki á eldinn en það dugði ekki til og var kominn mikill reykur í stofuna þannig að þeir gerðu það rétta  forðuðu sér út. 

Lögreglan kom á vettvang á undan slökkviliðinu og sprautaði einnig úr slökkvitækjum á eldinn þannig að þegar slökkviliðið kom á staðinn var lítill eldur logandi. Því voru allar stöðvar fyrir utan eina sendar til baka og íbúðin reykræst. 

Að sögn varðstjóra var kannað með líðan fólksins á staðnum en í ljós kom að enginn var með reykeitrun eða hafði orðið meint af að öðru leyti þannig að það þurfti ekki að flytja neinn á sjúkrahús. Eins eru litlar skemmdir af völdum reyks á íbúðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert